138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

skerðing skatttekna vegna gengistaps fyrirtækja.

[15:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Fyrirtæki borga 18% skatt af hagnaði árið 2010 en hann var 15% í fyrra. Aftur á móti geta fyrirtæki dregið uppsafnað tap tiltekins árs frá hagnaðarskatti á næstu þremur árum. Ætla má að mörg fyrirtæki séu með gengistryggð lán og að frá árinu 2008 hafi orðið gengistap vegna þeirra. Því mætti gera ráð fyrir að skatttekjur á árunum 2009, 2010 og 2011 verði fyrir verulegum áhrifum til lækkunar vegna þessa.

Nú spyr ég hæstv. viðskipta- og efnahagsráðherra hvort skoðað hafi verið hve mikið skatttekjur ríkisins skerðist í heild vegna gengistaps fyrirtækja af þessum sökum.