138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

skerðing skatttekna vegna gengistaps fyrirtækja.

[15:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Hér er mikilvægt mál á ferðinni, en ég verð að byrja á að vekja athygli á því að væntanlega er það fjármálaráðherra og ráðuneyti hans sem fyrst og fremst safnar tölum og leggur mat á þessa þætti. Ég get því ekki komið með neinar slíkar tölur, séu þær til eru þær í fjármálaráðuneytinu en mér hafa ekki verið sýndar þær.

Hins vegar er það alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir, að afar slæm afkoma íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum og sérstaklega á árunum 2008 og 2009, ekki reyndar bara vegna gengistaps af erlendum lánum heldur af ýmsum öðrum orsökum líka, veldur því að mjög mörg þeirra eru með uppsafnað skattalegt tap. Það er því alveg fyrirsjáanlegt að mörg þeirra muni ekki greiða neinn tekjuskatt alveg á næstunni sem vitaskuld er meðal þess sem veldur því að hallinn á rekstri ríkisins er jafnmikill og raun ber vitni.

Mörg þessara fyrirtækja eru að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og fá í einhverjum tilfellum felldar niður skuldir. Í einhverjum tilfellum fara þau í gegnum nauðasamninga eða gjaldþrot og það er ekki alveg ljóst hvernig úr þessu uppsafnaða skattalega tapi spilast við þær aðstæður. Það getur vel verið að eitthvað af því fyrnist og nýtist aldrei til lækkunar á skattgreiðslum sem er þá ágætt frá sjónarhóli fjármálaráðuneytisins geri ég ráð fyrir þótt það sé ekki gott frá sjónarhóli þeirra sem fjárfesta í þessum fyrirtækjum.

Í ljósi þess að ég hef ekki séð neina rannsókn sem áætlar nákvæmlega hvernig þetta kemur við fjárhag hins opinbera treysti ég mér ekki til að svara nákvæmara en svona.