138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

skerðing skatttekna vegna gengistaps fyrirtækja.

[15:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt að eitt af því sem þarf til að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang og á fullan snúning er að finna lausn á þeim bráða vanda sem steðjar að bæði íslenskum heimilum og fyrirtækjum vegna skulda, bæði erlendra skulda og skulda sem óumdeilanlega eru í innlendri mynt. Það hefur vitaskuld einnig áhrif á hag ríkissjóðs eins og ég ræddi í mínu fyrra andsvari.

En vegna þess að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir nefndi sérstaklega þá réttaróvissu sem komið hefur í ljós vegna lána í erlendri mynt eða gengistryggðra lána, og við vorum að ræða þetta í samhengi við skuldir fyrirtækja, er það minn skilningur að það sé talsvert annað upp á teningnum hvað varðar skuldir fyrirtækja en t.d. bílalán í þessu samhengi, sérstaklega hvað varðar lán til fyrirtækja. Þá er miklu sjaldgæfara að ágreiningur sé um að lánin hafi í raun verið í erlendri mynt.