138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram vegna skuldavanda sveitarfélaganna í landinu. Ég vil fyrst segja um það sem hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á, að þetta væri vegna efnahagsstefnu stjórnvalda síðustu 18 ár, að það er náttúrlega alrangt. Þetta er vegna efnahagsstefnu Sveitarfélagsins Álftaness. Það skilar okkur ekki áfram í umræðunni ef við ætlum að vera með svona upphrópanir sem standast engan veginn.

Vandi sveitarfélagsins á Álftanesi, virðulegi forseti, er mjög mikill. Skuldir sveitarfélagsins nema 7,4 milljörðum kr. en það er áætlað að sveitarfélagið sjálft geti staðið undir 2–2,5 milljörðum kr. Það er það sem við stöndum frammi fyrir. Þá er spurningin: Hvernig er hægt að koma til móts við það að Sveitarfélagið Álftanes finni út úr þessum vanda? Það gæti hugsanlega verið með sértækum úrræðum í gegnum jöfnunarsjóð en ég vara hins vegar mjög við því vegna þess að það kemur til með að bitna á þeim sveitarfélögum sem standa verst og eins sveitarfélögum úti á landsbyggðinni. Menn verða að fara mjög varlega þar.

Síðan er það sem hefur oft verið gert, sameining sveitarfélaga með svokölluðu skuldajöfnunarframlagi. Það hefur margoft verið gert í gegnum tíðina en það verður að gera innan eðlilegra marka.

Þá vil ég líka benda þeim hv. þingmönnum sem hafa talað eins og hv. þm. Magnús Orri Schram á að ekki stóð á hv. þingmanni í sumar og núna í desembermánuði þegar ég andæfði því mjög að ríkið sjálft færði tekjur frá sveitarfélögunum. Það sem gerðist árið 2009 var að ríkið færði 2,5 milljarða yfir á sveitarfélögin frá ríkinu, annars vegar með hækkun tryggingagjalds og hins vegar í frumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra vegna atvinnuleysistrygginga. Ég held að hv. þingmenn verði að vera samkvæmir sjálfum sér. Þegar þeir greiða atkvæði með því að færa tekjustofna frá sveitarfélögunum til ríkisins verða þeir líka að viðurkenna að hin almenna stjórnsýsla gildir um allt, hvort heldur eru fjárlög sveitarfélaga eða ríkisins.

Mikilvægast í þessu er þó að við þurfum að læra af þeim mistökum sem þarna voru gerð. Við þurfum að ræða þetta á þeim nótum hvernig við getum brugðist við. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga er alltaf að vinna úr gömlum gögnum (Forseti hringir.) og þegar menn fara í miklar fjárfestingar ættu þeir annaðhvort að þurfa að bera þær undir eftirlitsnefnd sveitarfélaga eða hugsanlega láta íbúana kjósa um það ef menn eru að fara í mjög stórar framkvæmdir. (Forseti hringir.)