138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:50]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Staða margra sveitarfélaga er afar erfið og fer versnandi. Bág fjárhagsstaða Álftaness er ekki einsdæmi þótt slíkt mætti stundum ætla af einsleitri umræðu um málið. Það er mikilvægt að hjálpa íbúum Álftaness að verja samfélag sitt og láta ekki vanhugsaðan niðurskurð eyðileggja það til frambúðar. Hvers kyns tilskipanir án samráðs eru stórvarasamar. Þannig á ekki að knýja íbúana til sameiningar með refsivönd niðurskurðar og sérskatta yfir höfðum sér. Íbúar Álftaness hafa áður hafnað sameiningu og vilja reka sjálfstætt sveitarfélag. Það er eðlilegt að Álftnesingar, sem aðrir, komi að nauðsynlegri umræðu um kosti sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og/eða stóraukinni samvinnu þeirra í milli en þeir eiga að gera það sem jafningjar annarra á svæðinu öllu og þar sem horft er til framtíðar.

Fyrir slíkri lýðræðislegri aðkomu hafa fulltrúar Á-listans á Álftanesi talað og það ber að virða. Þeir hafa líka lagt áherslu á sérstöðu Álftaness hvað varðar íbúasamsetningu og bent á að ef Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefði tekið sanngjarnt tillit til aldurssamsetningar á Álftanesi og stórfelldra útgjalda þar að lútandi væri staða sveitarfélagsins mun sterkari. Hlutfall barna og unglinga er á Álftanesi u.þ.b. 40% hærra að meðaltali en annars staðar. Sigurður Magnússon, fyrrum bæjarstjóri, hefur sýnt fram á að með réttlátari úthlutunarreglum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með tilliti til barnasamfélagsins mætti stórbæta stöðu sveitarfélagsins. Hann hefur lagt til að slík leiðrétting yrði látin ná aftur í tímann.

Ég tel eðlilegt að þetta verði kannað og að þingmönnum kjördæmisins verði sérstaklega veitt aðkoma að umræðu um málið.

Með langtímahagsmuni samfélagsins að leiðarljósi þarf að sýna fyrirhyggju, falla ekki frá framkvæmdum sem þegar er búið að fjármagna og beita ekki niðurskurðarhnífi eða aukaálögum (Forseti hringir.) þannig að það valdi varanlegu tjóni. Álftanes kann að vera fyrsta sveitarfélagið sem fær svona sýnilegan skell en mörg önnur bíða stóradóms. Við þurfum að standa með Álftanesi og Álftnesingum en ekki (Forseti hringir.) fordæma stöðu þeirra í almennum umræðum, stöðu sem í reynd er hlutskipti svo margra eftir hrun og endurspeglar stöðu Íslands. (Forseti hringir.)