138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að mörg sveitarfélög eru í miklum vanda. Níu þeirra fengu bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Álftanes er auðvitað í mjög miklum vanda en það eru líka sveitarfélög eins og Hafnarfjörður, Reykjanesbær og fleiri. Þegar við ræddum þetta hérna síðast sagði hæstv. ráðherra Kristján L. Möller að ekki væri komið að því að hugsanlega sameina Álftanes við önnur sveitarfélög. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er komið að því núna?

Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að skuldirnar eru mjög miklar. Sveitarfélagið stæði ekki undir þeim þótt þær væru meira en helmingi minni. Þó að farið væri í allt það sem hér hefur verið sagt af mikilli sanngirni, m.a. hækkuð meðgjöf vegna barna, dygði það samt engan veginn til. Þetta er hinn grimmi raunveruleiki. Skuldirnar eru mjög miklar.

Þá er spurningin: Hvað á að gera? Á að láta íbúa Álftaness bera allar þessar byrðar? Eða er möguleiki á að sameina?

Margrét Jónsdóttir bæjarfulltrúi hefur fengið samþykkta tillögu um að gerð verði skoðanakönnun þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fer fram 6. mars, um viðhorf til sameiningar hjá íbúunum og þá til hvaða sveitarfélaga ætti helst að leita. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ef slík skoðanakönnun sýnir afgerandi skoðanir bæjarbúa, t.d. með sameiningu og við eitthvert ákveðið sveitarfélag, mun það hafa áhrif á hæstv. ráðherrann þannig að hann grípi til 79. gr. sem heimilar sameiningu við önnur sveitarfélög þegar vandinn er mjög mikill? Eða telur ráðherrann æskilegt að bíða og sjá hvort hægt sé að koma sveitarfélögunum á réttan kjöl þó að tölurnar bendi ekki til þess, því miður, í augnablikinu? Það er mjög mikilvægt að við fáum skýr svör. Það stefnir í sveitarstjórnarkosningar og menn verða að vita á allra næstu dögum (Forseti hringir.) hvort það eigi að sameina eða ekki.