138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[16:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum og ráðherra fyrir málefnalega umræðu um stöðu Sveitarfélagsins Álftaness og almennt um stöðu sveitarfélaganna í landinu. Það er ljóst að ráðherra er með erfitt úrlausnarefni fyrir framan sig. Eins og fram kom í máli hans bitnar kreppan hvað verst á vaxtarsveitarfélögunum sem flest komu sér upp fölsku skjóli þar sem byggt var upp fyrir framtíðartekjur, eða lánsfé öllu heldur.

Fjölmargir þingmenn hafa komið fram með áhugaverðar hugmyndir eða grundvöll til umræðu. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir minntist á ábyrgð stjórnvaldsins. Kallað er eftir heildarendurskoðun, samþættingu fjármála ríkis og sveitarfélaga og skýrum fjárhaldsramma fyrir sveitarfélög til framtíðar. Hér er kannski ekki vettvangur fyrir skoðanaskipti þar sem aðrir þingmenn sem tóku þátt í þessari umræðu eiga þess ekki kost að koma upp aftur, þannig að ég mun kannski ekki svara efnislega þeim spurningum sem beint var til mín. Ég vil þó segja að efnahagshrunið á Íslandi átti að mínu viti upptök sín í efnahagsstefnu stjórnvalda undanfarin ár. Það sjáum við birtast ágætlega í málefnum Álftaness, ónógum og óskýrum eftirlátsheimildum stjórnvalda og gjaldmiðilsstefnu.

Eins og kom fram í máli ráðherra er ljóst að Álftanes þolir ekki meira en 2–2,5 milljarða í skuldabyrði, sem þýðir væntanlega að það er sú upphæð sem íbúarnir eiga eftir að standa undir, og ljóst er að núverandi breytingar eru tímabundnar. Það er ánægjulegt. Ég held að það sé mikilvægt að leyst verði úr mikilvægum erfiðum úrlausnarefnum fyrir hönd Sveitarfélagsins Álftaness og annarra sveitarfélaga og ég hef fulla trú á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála til þess. Við viljum að þetta sveitarfélag sem önnur geti snemma og strax farið að snúa vörn í sókn.