138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:14]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Með frumvarpinu er lagt til að sýslumanni beri að ósk gerðarþola að fresta nauðungarsölu fasteignar um allt að þrjá mánuði að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Með lögum nr. 23/2009, um breyting á lögum um nauðungarsölu, var ákveðið að sýslumaður skyldi að ósk gerðarþola fresta öllum nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Var úrræðunum m.a. ætlað að auka svigrúm einstaklinga í greiðsluerfiðleikum til að leita úrræða, endurskipuleggja fjármál sín og hugsanlega komast þannig hjá því að eignir þeirra væru seldar nauðungarsölu.

Með lögum nr. 108/2009 var fallið frá því að fresta öllum nauðungarsölum en þess í stað kveðið á um að sýslumanni bæri að verða við ósk gerðarþola um að fresta töku ákvörðunar um framhald uppboðs fram yfir 28. febrúar 2010. Þannig var gert ráð fyrir að nauðungarsölubeiðnir yrðu teknar fyrir og fyrri sala færi fram en frestað yrði að taka ákvörðun um hvenær síðari sala færi fram. Þannig færi lokasala fasteignar ekki fram fyrr en eftir 28. febrúar 2010 ef gerðarþoli óskaði eftir fresti.

Rétt er að rifja upp að við undirbúning þessara lagabreytinga gerði ráðuneytið ekki ráð fyrir að um frekari frestun á nauðungarsölum yrði að ræða og þess var sérstaklega getið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrgreindum lögum nr. 108/2009. Aftur á móti tók allsherjarnefnd sérstaklega fram í nefndaráliti sínu við þinglega meðferð málsins að hún teldi ekki rétt að útiloka þann möguleika að fresturinn yrði lengdur heldur teldi nefndin eðlilegt að það mál yrði skoðað sérstaklega í ljósi reynslunnar og hvort nauðsyn krefði. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að gerðarþoli geti áfram óskað eftir því við sýslumann að ákvörðun um síðari sölu fasteigna, þ.e. lokasölunni sjálfri, verði frestað í allt að þrjá mánuði. Er hér um sömu reglu að ræða og kveðið er á um í þeim lögum sem renna út í lok þessa mánaðar.

Vissulega kom til álita að framlengja frestinn ekki frekar. Í því sambandi verður þó ekki horft fram hjá því að hundruð eigna eru nú á lokafresti. Vísbendingar eru um að ekki séu komin til framkvæmda af fullum þunga þau úrræði sem löggjafinn samþykkti sl. haust um sértæka skuldaaðlögun og fleira, sbr. lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, nr. 107/2009. Því má segja að sanngirnisrök mæli með því að gefa einstaklingum frekara ráðrúm í þessum efnum. Einnig gefi þetta stjórnvöldum ráðrúm til að huga betur að því að bæta réttarstöðu lánþega en þegar er hafin vinna við slíkar úrbætur og verða tillögur vonandi kynntar innan tveggja til þriggja vikna. Í þessu ljósi er lagt til að fresturinn verði framlengdur þótt íslensk stjórnvöld hafi lýst því yfir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að svo yrði ekki. Þá kemur til álita hvort fresta eigi öllum lokasölum þar til ákveðnu tímamarki er náð. Sú leið er ekki valin í þessu frumvarpi heldur lagt til að hver og einn geti óskað eftir þriggja mánaða fresti í stað þess að fresta öllum málum fram yfir ákveðið tímamark. Verði ákvæði frumvarpsins samþykkt óbreytt munu nauðungarsölur þær sem koma til framkvæmda dreifast á sex mánaða tímabil sem hefst í byrjun júlí.

Eins og áður hefur margoft komið fram hefur frestur á nauðungarsölu að beiðni gerðarþola verið talinn nauðsynlegur svo að einstaklingum gefist kostur á að leita tiltækra úrræða til að ná tökum á greiðsluvanda sínum. Á síðustu missirum hafa verið lögfest úrræði til aðstoðar einstaklingum í greiðsluerfiðleikum eins og ég kom inn á áðan. Þykir rétt að frestur á nauðungarsölu verði enn á ný framlengdur að öllu þessu virtu svo að skuldarar fái möguleika á að nýta sér þau úrræði sem í boði eru. Eins og áður er frestunin ekki sjálfkrafa heldur verður gerðarþoli að óska eftir henni, einnig þótt eignin hafi áður verið í nauðungarsölufresti. Beiðni um frestun er unnt að leggja fram á tímabilinu frá gildistöku laganna fram til 31. ágúst 2010. Sé beiðni lögð fram 31. ágúst er unnt að fresta nauðungarsölu til desemberloka 2010. Sömu skilyrði eru fyrir því að unnt sé að fresta nauðungarsölu og áður hefur verið, þ.e. að um sé að ræða fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda.

Virðulegi forseti. Ég hef nú reifað efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.