138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:28]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg hárrétt að frestun á nauðungarsölum ein og sér leysir engan vanda og á það hef ég margoft bent. Það er ekki lausn í sjálfu sér að fresta nauðungarsölum. Hins vegar má segja að fresturinn gefi ákveðið ráðrúm. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan gerðum við í dómsmálaráðuneytinu ekki ráð fyrir frekari fresti vegna þess að við teljum að fresturinn skapi í sjálfu sér vanda með því að hundruð salna hrannast upp og bíða þess að vera boðnar upp. Það er vandamál í sjálfu sér.

Hvað varðar þau úrræði sem til staðar eru tæpti ég á því áðan í ræðu minni að e.t.v. eru ekki öll úrræði komin að fullu til framkvæmda en ég tel að það sé sameiginlegt verkefni okkar að finna út úr því. Gætu einhver fleiri úrræði komið til álita? Það er það sem við erum að ræða. Við ræðum t.d. úrbætur á greiðsluaðlögun en ég verð að segja að greiðsluaðlögunin er að mínu áliti ekki lausnin fyrir hinn breiða hóp heldur verða að koma til önnur úrræði. Það eru þá viðbótarúrræði sem ekki eru á sviði fullnusturéttarfarsins sem dómsmálaráðuneytið fer með heldur yrði að koma eitthvað á undan því sem þar fer fram. Þau lög sem ég nefndi áðan, sem voru til hjálpar einstaklingum og heimilum með sértækri skuldaaðlögun og fleira, voru að vísu úrræði sem hafa verið nefnd til sögunnar til að leysa ákveðin vandamál. Hvort þau leysa allan vandann skal ég þó ekki segja.