138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu er til marks um að það er enn langt í land þegar kemur að því að bregðast við þeim mikla vanda sem nú steðjar að íslenskum heimilum, vanda sem vissulega má færa sterk rök fyrir að hafi verið allt að því ómögulegt fyrir venjuleg heimili að bregðast við eða sjá fyrir. Vissulega voru íslensk heimili orðin mjög skuldsett fyrir hrun en við hrunið myndaðist staða á fjölda íslenskra heimila sem er óviðráðanleg. Þau plön sem fólk hafði gert um fjármál sín eru öll upp í loft og í raun og veru er mjög víða þannig komið málum að engin úrræði eru til af hálfu þeirra sem skulda peninga, m.a. vegna kaupa á íbúðarhúsnæði, og það hefur verið góð sátt um það á Íslandi að við höfum miðað á að fólk gæti keypt sér sína eigin íbúð og sín hús, ætti sínar fasteignir. Það hefur kallað á að tekin væru lán fyrir því og með því má skýra að hluta til meiri skuldsetningu íslenskra heimila en víðast annars staðar þar sem leigumarkaður er stærri hluti af íbúðamarkaði. Það breytir ekki því að staðan er grafalvarleg. Ég get tekið undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og eins með hv. þm. Ólöfu Nordal, það er nauðsynlegt að við skoðum þetta mál vel og að það fái nokkuð hraðan framgang í þinginu.

Ég vil þó benda á að við verðum að vanda þetta mál og hugsa það aðeins út. Ég tek undir athugasemdir hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um dagsetningar. Það verður að hafa í huga að sú staða kann að vera að það þurfi að framlengja þetta aftur og þá er skynsamlegt að horfa til dagsetninga þannig að þing sé aftur komið saman í haust svo ekki þurfi að beita bráðabirgðalögum eða kalla þingið sérstaklega saman til að gera slíkt.

Það eru nokkur atriði sem ég vil líka velta upp sem snúa að stöðu heimilanna hvað þetta varðar. Meðan við náum ekki að leysa þennan vanda og erum að ýta honum á undan okkur eins og hér er verið að gera hleðst upp vaxtakostnaður og dráttarvextir. Ég hef verið svolítið hugsi varðandi einmitt hugtakið dráttarvexti við aðstæður eins og þær sem eru uppi núna í hagkerfi okkar. Almennt eru rök fyrir því að menn borgi vexti af skuldum af því að peningar hafa minna gildi þegar tíminn líður, þ.e. ef það er vaxtalaus greiðsla á pening sem skal greiða eftir eitt ár er sú greiðsla verðminni þegar kemur að henni ef hún hefur ekki verið með einhverjum hluta verðbætt. Dráttarvextirnir sem einhvers konar refsivextir fyrir að standa ekki í skilum eiga auðvitað fullan rétt á sér en sú spurning hlýtur að koma upp við aðstæður eins og þær sem nú eru hversu mikinn rétt á sér slíkt fyrirbæri á þegar heilt hagkerfi hrynur og hversu skynsamlegt það er að ganga jafnlangt og við gerum við eðlilegar aðstæður í beitingu á slíkum úrræðum. Vandinn og hættan fyrir samfélag okkar og efnahagslíf er að heimilin standi alltaf verr og verr, neyslan minnki og minni neysla þýðir einfaldlega færri störf, minni umsvif sem aftur þýða minni laun sem aftur kalla á minni umsvif, minni eftirspurn heimilanna og koll af kolli svo úr verður vítahringur. Við verðum að rjúfa þennan vítahring. Við Íslendingar eigum allt undir því að stöðva þessa þróun sem illu heilli er komin af stað. Þess vegna, frú forseti, var það svo mikið óráð og ólán að tekin skyldi hafa verið sú ákvörðun að hækka skatta á heimilin í landinu sem þá þegar höfðu orðið fyrir því að lánin höfðu keyrst upp úr öllu valdi og tekjurnar dregist saman. Þá mátti ekki undir nokkrum kringumstæðum auka álögur á heimilin. Það sem var auðvitað sárgrætilegast í því var að útfærð tillaga lá fyrir, útfærð og útreiknuð um það hvernig hægt væri að mæta þörfum ríkissjóðs án þess að fara þessa ógæfuleið. En því miður var það gert og þess vegna fer vandi heimilanna vaxandi dag frá degi. Okkur hefur ekki auðnast að leggja fram tillögur um það hvernig eigi að taka á skuldamálunum og okkur hefur heldur ekki tekist að koma fram með ályktanir eða tillögur á Alþingi sem hafa fengið hljómgrunn hjá framkvæmdarvaldinu um það hvernig eigi að auka hér umsvifin í hagkerfinu. Okkur hefur heldur ekki tekist að koma í veg fyrir þær auknu álögur sem ég lýsti áðan sem birtast í skattahækkunum. Þess vegna erum við að lengja þennan frest, lengja í þessari ól, en tíminn er mjög naumur.

Þessu skylt, þ.e. umræðunni um dráttarvexti og hversu skynsamlegt er að því úrræði sé hægt að beita við þessar aðstæður, vil ég vekja athygli frú forseta á frétt sem mér var sýnd sem birtist á heimasíðu Ríkisútvarpsins og væntanlega hefur verið spiluð á útvarpsstöðinni. Hún fjallar um að hámark innheimtukostnaðar hafi verið hækkað. Mér þykir þetta nokkuð áhugavert og merkilegt í ljósi þeirrar umræðu sem hér fer fram. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa aðeins upp úr fréttinni:

„Hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar hefur verið hækkuð um 4–10% vegna launahækkana hjá skrifstofufólki innheimtufyrirtækjanna. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra segir hækkanirnar smávægilegar en nauðsynlegt sé að meta þennan kostnað á málefnalegan hátt.“

Svo heldur þetta áfram þar sem tiltekið er hversu miklar hækkanir um er að ræða og síðan er vitnað í hæstv. ráðherra:

„Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir þessa breytingu ekki stóra. Breytingarnar taki tillit að einhverju leyti til hækkunar launakostnaðar starfsmanna innheimtufyrirtækjanna.

Gylfi telur hækkunina óverulega og að hún hafi ekki mikil áhrif á þá sem innheimta þarf skuld hjá. Fjárhæðin þurfi hins vegar að endurspegla kostnaðinn sem af innheimtunni hljótist. Taka verði tillit til kostnaðar með málefnalegum kostnaði. Þó launin hafi ekki hækkað mikið verði að taka tillit til þess.“

Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að mér þykir heldur kaldlynt hjá ráðherranum að segja að það sé hans mat að þetta hafi ekki mikil áhrif á þá sem innheimta þarf skuld hjá. Þegar fólk er komið í þá stöðu að innheimtuaðgerðir eru komnar af stað er ekki mikið til skiptanna. Þetta ætti hæstv. ráðherra að vera algjörlega ljóst. Það er einmitt svona nálgun, þessi tónn og þessi framsetning sem ærir og særir allt venjulegt fólk, heiðarlegt og vandað fólk sem allt í einu stendur frammi fyrir óleysanlegum vanda í fjármálum sínum. Þá held ég að mönnum þyki heldur súrt í broti að viðskiptaráðherra segi að þetta sé nokkuð sem skipti ekki svo miklu máli, þetta sé málefnalegt af því að launin hafi hækkað hjá innheimtufyrirtækjunum á sama tíma og launin hafa verið að lækka alls staðar annars staðar í þjóðfélaginu. Reyndar verð ég sem hef tekið þátt í rekstri fyrirtækja að segja að mér þætti ansi gott ef ég gæti gengið að því vísu að ef kostnaður hækkar hjá mér gæti ég strax velt því út í verðlagið með því að hækka verðið á þjónustu minni án þess að þurfa að hafa nokkrar áhyggjur af því að eftirspurnin drægist saman. Það er ekki alveg þannig að sú þjónusta sem þarna er veitt sé drifin áfram af framboði og eftirspurn. Ég held að eftirspurnin sé kannski ekki mjög mikil.

Þetta leiðir hugann að því að við verðum að átta okkur á að þær aðstæður sem eru uppi núna eru það óvenjulegar og um leið skelfilegar að venjuleg viðmið sem við höfum eðlilega, þau að allir skuli greiða skuldir sem þeir hafa stofnað til o.s.frv., eiga ekki við. Ef við ætlum að nálgast þennan skuldavanda heimilanna og raunverulega þann vanda sem uppi er í íslensku efnahagslífi með því að segja að hér sé um venjulegan vanda að ræða, þetta séu venjuleg vandamál, mun fara illa hérna. Það er engin spurning. Það sem mun gerast ef við grípum ekki til ráðstafana er að eftirspurnin mun dragast saman, eins og ég nefndi áðan, vegna þess að heimilin hafa ekki peninga til að eyða og þegar heimilin hafa ekki peninga til að eyða mun vinnan í landinu dragast saman um leið. Nú þegar er allt of mikið atvinnuleysi og það mun vaxa ef heimilin geta ekki keypt vöru og þjónustu. Það er uppspretta og upphaf þessarar vinnu. Framleiðslan hangir á eftirspurninni, í það minnsta sú sem snýr að þörfum innan lands.

Það er því eðlilegt, frú forseti, að við köllum enn á ný eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar í lánavanda heimilanna. Sá vandi verður ekki leystur í gegnum dómsmálaráðuneytið þótt ágætt ráðuneyti sé. Þetta er ekki á verksviði þess. Þetta frumvarp er að sjálfsögðu góðra gjalda vert. Það kaupir einhvern tíma, en þessi tími er bara ekki falur. Tíminn er að renna út, frú forseti, og þó að við skrifum hér upp á frumvarp sem veitir lengri frest breytir það ekki hinum undirliggjandi þáttum sem eru þeir að okkur hefur ekki enn þá tekist að setja fram lausnir í fjármálum heimilanna. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er ekki sú sem þarf að vera til að hvetja atvinnulífið áfram til að búa til verðmæti og auka auðsköpun. Meðan svo er er hætta á að við sjáum svona frumvörp koma aftur og aftur meðan við reynum að fresta vandanum þangað til í fullkomið og algjört óefni er komið og ekki verður lengur frestað. Því skora ég, frú forseti, á þá þingmenn sem hér sitja í salnum og eru fylgismenn núverandi ríkisstjórnar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ýta við ríkisstjórninni, til að vinda ofan af þeirri skelfilegu og hættulegu hugmynd að hafa hækkað skatta á allt launafólk í landinu við þessar aðstæður, hækkað skatta á framleiðsluna og dregið þar með úr möguleikum fyrirtækja til að setja af stað nýja framleiðslu til að stuðla að nýsköpun í efnahagslífinu, til að vekja ríkisstjórnina upp með það að við Íslendingar eigum möguleika. Við eigum gríðarlegar orkulindir, íslenska þjóðin er mjög menntuð og vinnufús, við eigum alla möguleika en til að við getum nýtt þá heimilunum og fólkinu í landinu til hagsbóta þarf að breyta um stjórnarstefnu og það verður að gerast strax, frú forseti.