138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

Nauðungarsala.

389. mál
[17:12]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að almennt í þessari umræðu, þó að ég sé að bregðast við ræðu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, finnst mér gæta nokkurrar ósanngirni í málflutningi þegar því er haldið fram að ekkert hafi verið gert varðandi skuldamál heimilanna. Við getum hins vegar alltaf deilt um hvort gengið hafi verið nógu langt en mér finnst ósanngjarnt þegar menn tala þannig að ekki hafi verið gripið til neinna úrræða og ekkert hafi verið gert.

Ég vil minna hv. þingmann á að til eru úrræði sem hafa gagnast þó nokkrum hópi fólks og fjölskyldna hér á landi sem duga þeim hópi. Við skulum ekki gleyma greiðslujöfnuninni þar sem greiðslubyrðin var færð aftur til 1. janúar 2008 — ég hef hitt mjög margt fólk, fjölskyldur og einstaklinga, og auðvitað áttar fólk sig á því að það er verið að færa greiðslubyrðina aftur en þetta gagnast hins vegar fólki mjög mikið vegna þess að það eykur ráðstöfunartekjur þess tímabundið að færa þetta aftur með þessum hætti. Þetta gagnast ákveðnum hópi. En ég skal vera fyrsta manneskjan til að viðurkenna það, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að það er alveg ljóst að þessi úrræði gagnast ekki öllum og þá eigum við bara að viðurkenna það og setjast yfir vandann og koma með ný úrræði. En ég vísa því alfarið á bug og verð að segja að mér fannst það blettur á annars þokkalegri ræðu þingmannsins að tala með þessum hætti niður þau úrræði sem þó eru í gangi og gagnast þó nokkrum hluta almennings í landinu.