138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ekki endilega markmið hjá mér að fá einkunnina þokkalegt í einu eða neinu sem ég geri. Hins vegar ítreka ég það sem ég sagði í ræðu minni, ég er að vitna í kannanir sem hafa verið gerðar fyrir ASÍ á vegum Capacent Gallup þar sem kemur fram að níu af hverjum tíu segja að ekki sé nóg gert. Ég skal alveg viðurkenna, eins og ég nefndi í ræðu minni, að ákveðnir hlutir hafa farið í gegnum þingið. Ég var mjög sátt við það að greiðsluaðlögun skyldi vera leidd í lög og hefði átt að gera það fyrir lifandis löngu. En við sjáum það bara á þessu frumvarpi að það er verið að fresta vandanum, það er verið að ýta honum á undan sér. Og þó að fólk hafi tekið ákvörðun um að taka greiðslujöfnun er ekki þar með sagt að það upplifi það sem einhverja lausn, að það sé í raun og veru búið að gera eitthvað annað fyrir það en fresta vandanum. Þetta er sett inn á einhvers konar reikning, svokallaðan greiðslujöfnunarreikning í viðkomandi banka og enginn veit hvað á að gera við þann reikning, þetta er bara einhver bókhaldsbrella hjá bönkunum. Það kom einmitt líka fram í orðum hæstv. dómsmálaráðherra að það þurfi frekari úrræði. Það er kominn tími til, kannski í þessu máli eins og mörgum öðrum stórum málum, að menn fari raunverulega að vinna saman og það sé ekki þannig að úrræði komi frá ríkisstjórninni eftir 2–3 vikur og þau verði keyrð í gegnum þingið með afbrigðum, eins og var með greiðslujöfnunarfrumvarpið, heldur fáum við ráðrúm og allir flokkar komi að vinnunni, þannig að við getum öll verið fyllilega sammála um að þar séum við búin að gera eins vel og við getum, en ekki eins og t.d. var með greiðslujöfnunina að við hugsuðum að þetta væri skárra en ekki neitt.