138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur kærlega fyrir að upplýsa okkur um þessa skýrslu. Ég held að það væri tilvalið að hún yrði send til hvers einasta þingmanns. Ég held að það væri líka örugglega ágætt að hæstv. dómsmálaráðherra fengi hana því að ég fór í andsvör við ráðherrann og spurði sérstaklega út í úrræðin og hvað ríkisstjórnin væri að tala um að gera.

Ég verð hins vegar að halda því fram að hlutirnir hafi ekki gengið sérstaklega hratt fyrir sig. Ég held að hv. þingmaður geti örugglega tekið undir það með mér. Ég held að það sé ein af ástæðunum fyrir því að hún hefur sem formaður viðskiptanefndar lagt mikla vinnu á sig við að reyna að fá upplýsingar frá bönkunum um nákvæmlega hvaða skuldaúrræði þeir bjóða upp á, bæði gagnvart heimilum og fyrirtækjum. Ég held að það hafi tengst, ég hef a.m.k. metið það þannig, því að hv. þingmaður hefur talið að aðrar nefndir sem hafa komið nálægt þessu máli hafi ekki sinnt því nægilega vel. Við höfum lagt í mikla vinnu og viðskiptanefnd hefur líka skilað skýrslu nákvæmlega um þetta til þessarar nefndar sem tengist áhyggjum okkar af því að þau skuldaúrræði sem eru þegar til staðar séu alls ekki nægjanleg og það þurfi að gera meira.

Ég fagna því hins vegar að þessi skýrsla sé komin fram og vænti þess að hver einasti þingmaður verði búinn að kynna sér hana sem allra fyrst ef nefndinni þóknast að senda hana til þingmanna.