138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir 197. máli á þskj. 221 sem varðar gjaldþrotaskipti o.fl. Við lifum við mjög sérstakar aðstæður í íslensku samfélagi og höfum þurft að grípa til margvíslegra sérstakra ráðstafana af því tilefni. Eitt af því sem við þurfum að hafa áhyggjur af er að miklu skiptir að í aðdraganda gjaldþrots fyrirtækja komist menn ekki upp með að grípa til alls kyns óeðlilegra ráðstafana við að ráðstafa eignum út úr fyrirtækjum sem eru á leið í þrot. Til þess að koma í veg fyrir slíkt höfum við haft almenn ákvæði í lögum sem hafa gefið bústjórum heimildir til að rifta óeðlilegum ráðstöfunum aftur í tímann, lengst gagnvart nákomnum. En þeir tímafrestir sem áður voru settir, 6, 12 og 24 mánuðir eru hins vegar með þeim hætti að þeir duga engan veginn við þær aðstæður sem nú eru. Hættan er sú að í íslensku samfélagi muni fjöldi kröfuhafa koma að hlutafélögum sem búið er að hreinsa að innan með óeðlilegum ráðstöfunum í aðdraganda gjaldþrots og að eitthvað af þeim ráðstöfunum sé komið fram yfir frest þannig að hægt sé að rifta þeim gjörningum. Þess vegna er þetta einfalda mál flutt. Það er flutt í þriðja sinni.

Það var í fyrsta sinn flutt og lagt fram 3. apríl í fyrra eða innan við 6 mánuðum frá hruni, en heimildir bústjóra til að rifta samningum aftur í tímann eru ýmist 6, 12 eða 24 mánuðir, eftir því gagnvart hverjum gjörningarnir hafa verið hverju sinni. Síðan var frumvarpið lagt fram á ný á sumarþinginu og mælt fyrir því 11. júní. Fór það þá til nefndar og umsagnar. Var tekið undir það í nokkrum umsögnum, í öðrum voru ekki gerðar við það athugasemdir og ein skilanefndanna benti á að ganga þyrfti sömuleiðis í að breyta öðrum fyrningarákvæðum. En málið komst því miður ekki til 2. umr. frá hv. allsherjarnefnd en er nú lagt fram þriðja sinni. Ég tel að í ljósi þess hversu langt er nú liðið frá hruni sé mjög mikilvægt að málið nái fram að ganga á þessu þingi og verði að lögum til að, eins og við flutningsmenn segjum, undirstrika það að bústjórar í þrotabúum við þessar sérstöku aðstæður hafi nokkuð ríkulegar heimildir fjögur ár aftur í tímann til að ógilda gjörninga sem menn hafa gripið til. Það er því miður staðreynd og reynslan sýnir okkur að þegar menn eru í fjárhagserfiðleikum og stefna í þrot freistast þeir til að gera ýmsar ráðstafanir sem ekki geta talist eðlilegar. Þær bitna á þeim sem í grandaleysi hafa lánað viðkomandi félögum til rekstrar.

Hér eru hlutir til að mynda eins og að greiða sum lán fyrr en önnur, lán sem eru frá sjálfum eigendunum eða rekstraraðilunum, lán sem eru frá tengdum aðilum, ráðstafanir á eignum út úr félögum þrotamanna og ýmsar aðrar óeðlilegar ráðstafanir þrotamanna. Hér er gert ráð fyrir því að vegna þess hvers mörg mál eru í gangi og vegna þess að alls staðar í samfélaginu gefa menn greiðslufrest, þeir fá svigrúm til að standa í skilum og færi á því að standa lengur að rekstri en í venjulegu ári þar sem þeir eiga í greiðsluerfiðleikum, að sú viðleitni verði til að hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum í greiðsluerfiðleikum, ekki til að menn komi síðan að tómum búum þar sem frestir til að rifta gjörningum séu liðnir. Það var gert ráð fyrir því þegar við lögðum málið fram, og er svo enn hvað það varðar, að þetta eigi við tímabilið frá 6. október 2008 og út árið 2011, en frá því að málið var lagt fram hefur mátt ráða það af fréttaflutningi að hætt sé við því að einhverjir hafi séð fyrir þá atburði sem urðu í byrjun október 2008 og kunni að hafa gripið til ráðstafana fyrr á því ári. Ég vil þess vegna beina því til hv. allsherjarnefndar að hún skoði sérstaklega hvort ekki sé rétt að láta þetta einfaldlega gilda frá upphafi árs 2008 þannig að þeir gjörningar sem menn kunna að hafa gripið til í aðdraganda hrunsins, þ.e. fyrir 6. október, séu líka undir. Ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að leita sem flestra og bestra leiða til að tryggja að menn geti komist upp með sem allra minnst af óeðlilegum gjörningum vegna fyrninga eða annarra slíkra formsatriða.

Ég árétta að sú lengda heimild sem gert er ráð fyrir er auðvitað einvörðungu til bústjóra þegar þeir telja að ráðstafanirnar hafi verið óeðlilegar. Þetta er þess vegna ekki með neinum hætti íþyngjandi fyrir þá sem átt hafa í eðlilegum viðskiptum. Það er einfaldlega verið að tryggja að hægt sé að stöðva óeðlilegar ráðstafanir ein fjögur ár aftur í tímann. Klárlega mundi það gilda um félög sem kæmu inn til skipta eftir að þetta verður að lögum. Þá gildir það fjögur ár aftur í tímann gagnvart þeim. Einhver áhöld kunna að vera um þau félög sem farið hafa í þrot frá hruni og til þess dags sem málið verður að lögum en ég tel a.m.k. að í þeim tilfellum þar sem fresturinn er enn ekki liðinn til riftunar eftir gildandi lögum mundi frumvarpið verða til að lengja þann frest í fjögur ár. Ég held raunar að í þessu efni eigi menn að ganga eins langt og nokkur kostur er, en eðlilegt er að hv. allsherjarnefnd fari yfir þá þætti málsins hversu langt aftur hægt er að ganga í þessu efni. Það er líka mikilvægt að menn hafi það aðhald þegar þeir berjast í sínum fjármálum við þær aðstæður sem núna eru að þeir viti að búið sé að gera ráðstafanir af hálfu löggjafans til að hægt sé að ógilda allar óeðlilegar ráðstafanir, það geti líka orðið til þess að bæta viðskiptasiðferði og auka aga og aðhald með aðgerðum manna við þær erfiðu aðstæður sem margir glíma við í dag. En það er með öllu óþolandi ef kröfuhafar þurfa að verða fyrir því æ ofan í æ að koma að þrotabúum þar sem þrotamennirnir hafa í aðdraganda gjaldþrots gripið til ráðstafana sem eru óeðlilegar og misbjóða freklega öllum hugmyndum okkar um eðlileg viðskipti og siðferði. Það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi geri það sem það getur til að varna því að slíkir hlutir fyrnist óeðlilega hratt við þessar aðstæður. Þess vegna er mikilvægt að hv. allsherjarnefnd fari yfir málið hratt og vel og þetta verði gert að lögum á yfirstandandi þingi.

Meðflutningsmenn mínir að málinu eru hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málið verði sent til umfjöllunar hv. allsherjarnefndar.