138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að áhyggjur af afturvirkni ættu einmitt að verða nefndarmönnum í hv. allsherjarnefnd hvatning til að ljúka afgreiðslu málsins svo fljótt sem auðið er. Hv. þingmaður nefndi líka atriði sem vert er að hafa í huga í þessu sambandi sem eru félagaflækjurnar, sem hún nefndi svo.

Þegar löggjafinn setti bústjórum heimildir á sínum tíma til að rifta gjörningum 6 mánuði, 12 mánuði eða 24 mánuði aftur í tímann var það gert í allt öðru umhverfi en við búum við nú. Þá var til að mynda yfirleitt bara eitt fyrirtæki um hvern rekstur. En þessar miklu fyrirtækjasamstæður eða grúppur sem við höfum kynnst á seinni árum voru auðvitað ekki hluti af veruleikanum. Nú er það hins vegar þannig að fyrst þurfa menn að ganga að einu félagi og þegar þeir hafa komist með það félag í gegnum fullnustuferli þurfa þeir að ganga að næsta félagi og síðan jafnvel að þriðja félaginu. Allt er þetta auðvitað miklu tímafrekara og tafsamara en það var í hinum eldri og einfaldari veruleika sem menn bjuggu við þegar þeir settu þessa fresti. Það er enn ein málefnalega ástæðan fyrir því að lengja þá fresti sem hér er um að ræða. Ég held að við eigum sannarlega, þótt gæta þurfi að réttarfarsreglum þarna, að ganga eins langt og við getum í þessu efni, vegna þess að það sem hér er verið að gefa heimildir til að rifta eru þegar allt kemur til alls óeðlilegar ráðstafanir.