138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er sjálfsagt að gæta að þeim atriðum sem hv. þingmaður nefnir en hins vegar er það ekki þannig að þegar menn kaupa gerninga á markaði skoði þeir hvort tiltekinn frestur til að rifta ákveðnum aðgerðum sé í gildi ef viðkomandi félag færi í þrot og hvort hann nái þá aftur til viðkomandi gerninga. Ég held að það sé kannski fullhátt flækjustig og ég held að það sé algerlega ótvírætt að þessi lög hljóti að ná til þeirra búa sem kæmu til skipta eftir að þessi lög hafa tekið gildi.

Hins vegar kann að vera meira álitamál um þau bú sem hafa farið inn til skipta nú að undanförnu þar sem frestirnir eru í gildi en ég tel engu að síður að það eigi að lengja þá fresti sem þegar eru fyrir hendi í lögum vegna sérstakra aðstæðna með vísan til almannaheilla og þess neyðarástands sem er í efnahags- og viðskiptamálum þjóðarinnar og það eigi sér málefnalegar og réttlætanlegar forsendur.