138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég flyt frumvarp til laga um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála vegna gengistryggðra lána. Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari, Ólöf Nordal, Ólína Þorvarðardóttir, Þráinn Bertelsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Atli Gíslason og Erla Ósk Ásgeirsdóttir. Ég vil byrja á að geta þess í upphafi máls míns hversu ánægjulegt það er að á þessu máli eru fulltrúar allra þingflokka og þingmanns utan flokka. Við sjáum hér, eins og var rætt ítrekað fyrr í dag, þegar við vorum að tala um frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra, að við getum náð samstöðu á milli flokka, þverpólitískri samstöðu, um úrræði til að takast á við skuldavandann og við getum líka sýnt að hægt er að bregðast hratt og vel við þegar mál koma upp eins og hvað varðar þetta hér.

Hinn 12. febrúar sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, í máli nr. E 7206/2009, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ákvæði lánasamnings um gengistryggingu væri ólögmæt verðtrygging þar sem lánið var veitt í íslenskum krónum. Áður hafði fallið annar dómur, E 4501/2009, við sama dómstól þar sem komist var að gagnstæðri niðurstöðu í mjög svipuðu máli. Það er ljóst að þar sem þetta er sami dómstóll, tveir dómarar að vísu, er komin upp fullkomin réttaróvissa um þau álitaefni sem verið var að fjalla um í þessum málum, sem er gengistrygging lána. Úr henni verður ekki skorið nema með dómi í Hæstarétti. Að vísu hefur verið bent á að Hæstiréttur er ekki alltaf samkvæmur sjálfum sér en ég geri ráð fyrir því, miðað við hversu stórt mál er um að ræða og mikla hagsmuni, að það verði fjölskipaður Hæstiréttur sem muni taka á þessum málum.

Ég hef það á orði að verið sé að tala um gífurlega mikla hagsmuni en það kom fram í svari hæstv. viðskiptaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um bílalán í erlendri mynt, eða svokölluð gengistryggð lán, frá því í júlí 2009 að 40.414 einstaklingar væru með fjármögnun bifreiðar í slíku lánsformi. Í flestum tilvikum eru bílasamningar þannig að lánafyrirtæki hefur 1. veðrétt í bifreiðinni eða eignaleigufyrirtæki með eignarrétt á bifreiðinni meðan á samningstíma stendur. Ef skuldari stendur ekki í skilum er bifreiðin seld og skuldara ber að greiða eftirstöðvar skuldarinnar rétt eins og um veðskuld sé að ræða. Heildarupphæð þessara samninga var þá áætluð rétt ríflega 115 milljarðar kr. Í svari sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra gaf við fyrirspurn hv. þm. Helgu Sigrúnar Harðardóttur, um gengistryggð húsnæðislán, kom fram að gengisbundin skuldabréf til heimila væru 315 milljarðar í lok september það ár og um 107 milljarðar skilgreindir sem erlend íbúðarlán. Ekki hafa legið fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda en um 6.200 erlend lán með veði í íbúðarhúsnæði voru útistandandi hjá stærstu innlánsstofnunum á þessum tíma.

Í lok september voru þannig tæp 9% af húsnæðisskuldum heimilanna gengisbundin lán samkvæmt skilgreiningu innlánsstofnana en verðtryggð húsnæðislán til heimilanna voru á sama tíma um 122 þúsund eða samtals að fjárhæð 1.100 milljarðar kr. Þarna erum við ekki einu sinni farin að tala um upphæðina sem tengist lánasamningum fyrirtækja þannig að við sjáum, hvort sem við lítum á hagsmuni einstaklinga, fjölskyldna og heimila eða bara fjárhæðirnar sem eru á bak við þessa lánasamninga, að þarna er um að ræða gífurlega hagsmuni. Í þessu máli er annars vegar verið að leggja til breytingu eða bráðabirgðaákvæði á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að hægt sé að óska eftir flýtimeðferð fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Nú er ágreiningur milli aðila um lán eða kaupleigusamning sem er tilgreindur í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla (gengistrygging). Hyggist aðili höfða mál vegna slíks ágreinings getur hann óskað eftir því að málið sæti meðferð eftir ákvæðum XIX. kafla um flýtimeðferð einkamála. Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2010.“

Ástæðan fyrir því að lagt er til að setja þetta bráðabirgðaákvæði er sú að það er raunar ekki heimild í núverandi lögum til að hleypa þessari tegund af málum fram fyrir í dómstólakerfinu og það er að sjálfsögðu þannig að dómstólar, sem þriðja valdið í stjórnskipan landsins, taka ekki við fyrirmælum um forgöngu mála, hvorki frá ráðherrum né öðrum. Það má jafnvel telja einsýnt að dómstólar telji sér óheimilt að flýta málum þar sem reynir á lögmæti innlendra lána og kaupleigusamninga í erlendri mynt og/eða gengistryggðra umfram önnur mál en eins og hefur komið fram margítrekað í fjölmiðlum er óvenjumikið álag á dómstólum landsins í kjölfar bankahrunsins. Síðan hafa lögfræðingar og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra bent á að þó að komin væri niðurstaða, sem tengist því að talað er um 31. desember 2010, í þessum tveimur málum fyrir Hæstarétti er ekki sjálfgefið að þessir dómar hafi almennt fordæmisgildi vegna þess að gengistryggðir lánasamningar eru ekki allir af sama toga. Þeir eru orðaðir mismunandi og þar sem ekki eru ákvæði í íslenskum lögum um hópmálsóknir þá eru náttúrlega einu úrræðin fyrir einstaklinga eða fyrirtæki að sækja rétt sinn í einstökum málum. Menn hafa verið að reyna að leita leiða til að komast einhvern veginn fram hjá þessu en svona er lagaumhverfið sem við búum við.

Seinna ákvæðið í þessu frumvarpi er í 2. gr. Þar er lagt til að komi annað ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

„Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að fresta fram yfir 31. desember 2010 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu skv. 6. gr. á grundvelli lána eða kaupleigusamninga sem eru tilgreindir í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla (gengistrygging). Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar eignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður við gildistöku þessara laga fresta þeim aðgerðum fram yfir 31. desember 2010.“

Ólíkt því sem er í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra, þar sem gerðarþoli þarf sjálfur að fara fram á frestunina, þá er það þannig að sýslumaður mundi samkvæmt þessu ákvæði, ef það yrði að lögum, sjálfkrafa verða að fresta þessum aðgerðum, nauðungarsölu. Rökin fyrir þessu eru þau að í ljósi réttaróvissunnar sem skapast hefur er hreinlega ósanngjarnt, óheiðarlegt og hættulegt fyrir sáttina í samfélaginu að þeir einstaklingar og fjölskyldur sem hlut eiga að máli þurfi að þola nauðungarsölur meðan beðið er niðurstöðu dómstóla. Þá ber sérstaklega að hafa í huga þá staðreynd að samkvæmt gildandi lögum er lánardrottnum hér á landi heimilt að halda áfram innheimtu hjá lánþegum eftir að veðtrygging hefur verið fullnustuð og sækja áfram að lánþegum með eftirstöðvar samninga. Lýkur slíkum innheimtum oftast með aðfaragerðum og í mörgum tilfellum gjaldþroti lánþega. Þetta er eitthvað sem margítrekað hefur verið bent á, skýrslur frá Seðlabankanum væntanlega, ný skýrsla frá þverpólitískri nefnd um skuldir heimilanna — við vitum að veðið sem er á bak við þessa samninga er að mörgu leyti mun verðminna en lánasamningarnir eða þær kröfur sem eru á þessum eignum. Þá erum við að horfa fram á það að þarna er verið að halda áfram. Eftir að búið er að fullnusta í veðinu sjálfu er haldið áfram með aðfaragerðum og í verstu tilfellum erum við jafnvel að tala um gjaldþrot lánþega. Það varðar mjög miklu að við komumst hjá svo alvarlegum aðgerðum á meðan fullkomin óvissa er um lögmæti þessara samninga.

Með þessu ákvæði — og þetta er það sem ég tel að hafi ekki komið nógu vel fram í fjölmiðlum — er líka verið að gæta hagsmuna fjármálastofnananna sjálfra því þær gætu reynst bótaskyldar gagnvart neytendum ef þær halda áfram innheimtu á ólögmætum gengislánum. Það mátti greina það í yfirlýsingu stjórnenda fjármálafyrirtækis fyrst eftir að dómurinn féll að þeir virtust ekki vera nægilega vel upplýstir um að það er ákvæði um nauðungarsölu, með leyfi forseta, sem er svohljóðandi:

„Hafi gerðarbeiðandi krafist nauðungarsölu sem síðar er leitt í ljós að skilyrði skorti til ber honum að bæta allt það tjón sem aðrir hafa beðið af þeim sökum.“

Ég held að einhverjar fjármálastofnanir séu farnar að gera sér grein fyrir því að það er kannski betra að hægja aðeins á sér. En maður veit ekki hvort allar þessar stofnanir og starfsmenn þeirra geri sér fyllilega grein fyrir þessu. Þetta er eitthvað sem talsmaður neytenda benti á á vefsíðu sinni í lok árs 2009 og líka að ekki væri útilokað að jafnvel stjórnendur fyrirtækja og almennir starfsmenn þessara fyrirtækja gætu borið meðábyrgð á hugsanlegu tjóni neytenda ef og þegar Hæstiréttur staðfestir ólögmæti gengisbundinna lána, samanber hinn svokallaða sanngirnismælikvarða. Það var sem sagt verið að vísa til skaðabótalaganna þar sem kveðið er á um að líta skuli til sakar og stöðu starfsmannsins og atvika að öðru leyti og hagsmuna tjónþola en að vísu er hægt að benda á að í sömu lögum eru ákvæði sem gætu komið til álita til mildunar á hugsanlegri skaðabótaábyrgð.

Það er því ljóst að það skiptir geysilega miklu máli að skorið verði úr um lögmæti þessara lánasamninga, og það verði gert hratt og vel enda gætum við séð fram á mikinn ófrið og jafnvel upplausnarástand í samfélaginu ef innheimtum og fullnustugerðum verður fram haldið á meðan þessi mikla óvissa varir. Það er því nauðsynlegt að lögin öðlist þegar gildi til að draga sem mest úr réttaróvissunni, forða hugsanlegum bótamálum og tryggja hraða meðferð þessara mála í dómskerfinu. Enda er í 3. gr. talað um að lögin öðlist þegar gildi um leið og Alþingi væri búið að fjalla um málið og samþykkja þannig að þetta eru rökin fyrir þessu.

Ég vonast til þess að í lok þessarar umræðu muni allsherjarnefnd vinna þetta mál, og önnur mál sem hafa verið rædd í dag, hratt og vel. Þau skipta öll máli. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra benti á þá er það þannig að þó að ríkisstjórnin sé að leggja fram ákvæði um frestun nauðungarsölu á fasteignum, lögheimili einstaklinga, þá tekur það ekki á því sem verið er að tala um hér, þessari ákveðnu tegund af lána- og kaupleigusamningum sem réttaróvissa er um. Þess vegna segjum við að sýslumönnum beri í þessu tilviki skylda til að fresta nauðungarsölum og síðan að gefa dómstólum heimild til að taka þessi mál í flýtimeðferð ef málsaðilar óska þess.