138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[18:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessu frumvarpi til laga um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála vegna gengistryggðra lána. Í 2. gr. frumvarpsins stendur að lagt sé til að nauðungarsölum vegna lána eða kaupleigusamninga, sem eru tilgreindir í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla (gengistrygging) verði frestað sjálfkrafa til 31. desember 2010 í ljósi réttaróvissunnar. Eins og ég sagði er ég mjög ánægð með að þetta frumvarp er lagt fram og að þverpólitísk samstaða hafi náðst um það. En ég er að velta fyrir mér stöðu þeirra sem standa frammi fyrir því að verið er að ganga að þeim á grundvelli laga um lána- og kaupleigusamninga, að ganga að eigum þeirra, að upptöku eigna og aðför að eignum ef viðkomandi er kominn í vanskil. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér varðandi það bil sem myndast fram að þeim tíma sem þessi lög hugsanlega öðlast gildi á Alþingi?

Mér skilst að einn banki, Arion banki, hafi veitt sambærilegan frest, fram að áramótum, og verið er að tala um í frumvarpinu. En maður heyrir að fjármögnunarfyrirtæki eru að ganga mjög hart að þeim sem eru komnir í vanskil og eru í vandræðum. Hvaða úrræði sér hv. þingmaður í stöðunni varðandi þá aðila sem mundu lenda í þessu bili þar til þessi lög yrðu hugsanlega að lögum frá Alþingi?