138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvar hennar. Ég vil benda á í framhaldi vegna vinnunnar innan allsherjarnefndar að það var með vilja sem við skilgreinum þetta þröngt, hin svokallaða gengistrygging er tilgreind í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Nú þegar eru mál komin fyrir héraðsdóm þar sem látið er reyna á skilgreininguna á því hvað erlent lán er í sjálfu sér. Getum við t.d. sagt að erlent lán sé erlent lán þótt það sé á milli tveggja innlendra aðila og engin gjaldeyrisviðskipti eiga sér nokkurn tímann stað á milli þessara aðila, þótt í sjálfu sér sé talað um svokallaða gengistryggingu? Það er eitt af því sem ég t.d. tel að allsherjarnefnd þurfi að skoða, hvort við eigum að halda okkur við það að taka einmitt á þessum dómi, þeim málum sem þegar hafa verið dæmd fyrir héraðsdómi og hina svokölluðu gengistryggingu, eða hvort við viljum opna þetta meira og tala um gengislán eða erlend lán þannig að það gefist svigrúm til að láta reyna á þau mál líka.

Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir því hversu fjölbreytilegir þessir lánasamningar eru, bara út frá umfjöllun í fjölmiðlum og öðru, eða hversu miklum breytingum þeir hafa tekið frá því farið var að bjóða upp á þetta. Það virðist vera að fjármálastofnanirnar hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir lagaumhverfinu þannig að skilmálar viðkomandi samninga tóku stöðugt breytingum.

Í þessum dómi er hins vegar bent á að það eru fjármálastofnanirnar, bankar og fjármögnunarfyrirtæki, sem skrifa skilmálana. Þau skrifa samningana þannig að í rauninni er sönnunarbyrði þeirra, þ.e. að skýra hver ástæðan var fyrir þessu, miklu þyngri en þeirra sem tóku lánið því að þeir skrifuðu ekki samninginn, þeir skrifuðu bara undir hann. Ég hef heyrt alla vega um einn lánasjóð sem íhugaði að taka upp erlend lán en þar var síðan tekin ákvörðun um að gera það ekki vegna þess að talið var að lagaumhverfi fyrir þessari tegund af lánum væri of óskýrt og óvíst hvernig ætti að útfæra þetta nákvæmlega.

Það getur vel verið að bjallan hjá mér sé aðeins biluð,

(Forseti (ÞBack): Já.)

en ég þakka kærlega fyrir andsvarið.

(Forseti (ÞBack): Það reyndist nú rétt að klukkan stóð á sér.)