138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem upp undir þessum lið er fregn sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, nánar tiltekið á bls. 2 þar sem fram kemur að eftir að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu hafi viðræður um aðild Færeyja að EFTA verið lagðar til hliðar. Til að upplýsa þingheim hafa Færeyjar hafa sótt það mjög fast, með öflugum stuðningi Íslendinga, að fá aðild að fríverslunarsamtökunum. Ég þarf ekki að útskýra fyrir þeim sem hér eru eða Íslendingum yfirleitt, að hér er um okkar bestu vini að ræða, Færeyinga, sem reyndust okkur afskaplega vel á örlagastundu, eins og alltaf. Þeir vilja frelsi til að versla með sínar vörur og til slíks var stofnað þegar EFTA var sett á laggirnar á sínum tíma.

Í mínum huga er málið mjög einfalt. Það er algerlega óásættanlegt að við skulum ekki núna á þessum tíma, og þótt það væri á öðrum tíma, beita okkur af fullu afli til að þessi vinaþjóð okkar geti fengið aðild að fríverslunarsamtökunum. Þess vegna finnst mér þetta vera mjög slæm frétt. Þetta er ekki tilgáta heldur er þetta staðfest af forustumönnum færeysku landstjórnarinnar. Ég vil hvetja þingmeirihlutann til að beita sér í málinu til að vinir okkar geti komist inn í EFTA. Ég vildi þess vegna gjarnan heyra í hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur varðandi þetta því að þeir þurfa á okkur að halda í þessu máli. (Forseti hringir.) Við Íslendingar höfum stutt þá fram til þessa og ef eitthvað er ættum við að styðja þá af enn þá meiri krafti núna.