138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Íslendingar og íslensk stjórnvöld eru og verða helstu bandamenn Færeyinga og stjórnvalda í Færeyjum. Þess vegna hafa Íslendingar lagt sig í framkróka við og beitt fortölum í samtölum bæði við Norðmenn og Dani og þá sem eiga aðild að EFTA að fá opnað á að Færeyjar komist til aðildarviðræðna. Hafa verður í huga að þeir hafa ekki lagt fram formlega ósk um slíkt. Enginn hefur stutt Færeyjar jafndyggilega í þessari vegferð sinni og íslenskar ríkisstjórnir og það er engan bilbug á ríkisstjórn Íslands að finna í þeim efnum.

Svo virðist sem Færeyingar hafi sjálfir ákveðið að leggja þessi áform sín á ís um hríð, eins og segir í frétt Morgunblaðsins í dag. Ástæða þess gæti verið að í færeyska Lögþinginu er skýrslu beðið þar sem gerð er úttekt á sambandi og samstarfi Færeyja við Evrópu, bæði EFTA og Evrópusambandið, og mun hún líta dagsins ljós á vormánuðum það ég best veit þannig að það kann að vera ástæðan. En ég vil að þingheimur allur viti að í þessum efnum er engan bilbug að finna á stuðningi íslenskra stjórnvalda við þá ósk færeyskra stjórnvalda, verði hún gerð formleg, að sækja um aðild að EFTA.