138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Á Vísi í dag er frétt þar sem vitnað er í hæstv. utanríkisráðherra þar sem hann segist ekki sjá tilgang með þjóðaratkvæðagreiðslu þegar tilboð um betri niðurstöðu liggi fyrir. Hvaða skilaboð er verið að senda með þessu? Ég veit ekki betur en hæstv. fjármálaráðherra hafi tekið undir þetta með svipuðum orðum í fréttunum. Hvað felst í þessu tilboði? Veit þingheimur það? Veit þjóðin það? Er það mat hæstv. utanríkisráðherra og er það mat ríkisstjórnarinnar að þetta tilboð sé betra? Betra en hvað? Betra en sá samningur sem keyrður var í gegnum þingið fyrir áramót?

Maður veltir fyrir sér hvort það sé einlægur vilji ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að koma í veg fyrir að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem boðuð er vegna Icesave nái fram að ganga. Telja menn virkilega að það styrki samningsstöðu Íslands að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna svona stuttu áður en hún á að fara fram? Og á hvaða forsendum ætti að hætta við hana? Hvað er í þessu tilboði? Það er mjög undarlegt að menn skuli koma fram með þessum hætti. Við hljótum hreinlega að spyrja okkur hvort þessi yfirsýn sé mjög gáfuleg, ég ætla að leyfa mér að nota það orð, á þessum stað í þeim viðræðum sem við eigum í. Hafa ráðgjafar okkar ekki sagt að það styrki okkar samningsstöðu að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé fram undan? Hvers vegna fara þá ráðherrar fram með þessum hætti? Ég held að þingheimur þurfi að senda skýr skilaboð um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Ríkisstjórnin hefur ekki umboð til að draga hana til baka, ekki síst þegar ekki liggur fyrir hvað er á borðinu. Síðan veltir maður fyrir sér í ljósi þeirra leyniupplýsinga eða leyniskjals, eða hvað það var sem lak í fjölmiðla um fundi starfsmanna utanríkisþjónustunnar með Bandaríkjamönnum og Bretum, hvort það sé eðlilegt að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti þegar fram kemur að Bretar og Hollendingar vilja að við hættum við hana.