138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vildi vegna orðaskipta okkar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að það kæmi skýrt fram hér að það er mat Færeyinga að leggja þetta mál til hliðar um sinn. Væntanlega höfum við lesið sömu frétt í Morgunblaðinu í dag. Þar segir aðalræðismaður Færeyja á Íslandi að hún útiloki ekki að aðild Íslands að Evrópusambandinu geti greitt fyrir aðild Færeyja að EFTA. Það eru því ýmsar hliðar á þessum málum og væntanlega eru Færeyingar að kanna þær til hlítar þessa dagana.

Vegna orða hv. þm. Þórs Saaris vil ég segja að eitt er að innleiða persónukjör í landslög og lög til sveitarstjórnarkosninga. Annað er að stjórnmálaflokkar eru þessa dagana að stilla fólki upp á framboðslista eftir ýmsum aðferðum. Ég geri ráð fyrir því að fólkið í stjórnmálaflokkunum og þeir sem taka þátt í prófkjöri eða forvali, sérstaklega ef þau eru opin, sjái til þess að framboðslistarnir séu hverri stjórnmálahreyfingu til sóma. Þannig er nú einfaldlega lýðræðið í landinu.

Það er einmitt fyrir venjulegt fólk að fara í framboð, hvort sem það er til bæjarstjórnar eða Alþingis, en það þarf enga óvenjulega hæfileika til, eins og hv. þingmaður virtist telja hér áðan. Það er hverjum manni frjálst að stofna til hreyfingar og bjóða fram hvort sem það er í sveitarfélaginu Álftanesi eða einhvers staðar annars staðar. Til þess er nægur tími og til þess er lýðræðið.