138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að við gefum núna skýr skilaboð til þjóðarinnar um að þjóðaratkvæðagreiðslan muni fara fram. Það er einungis eftir tíu, ellefu daga sem laugardagur 6. mars rennur upp. Það er algjörlega ljóst að við höfum borið gæfu til þess að standa saman upp á síðkastið um þetta mál, við Íslendingar.

Eftir síðasta útspil frá viðsemjendum okkar hefur hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagt að það beri of mikið á milli þeirra draga sem viðræðunefnd Íslendinga kynnti á fundi fyrir stuttu, sem allir flokkar voru annars sammála um, það var okkar grunnpunktur. Það ber of mikið á milli tilboðs okkar og þess tilboðs sem við höfum fengið til baka.

Svo berast líka fréttir — þær fréttir eru reyndar óstaðfestar — af því að Hollendingar telji að við eigum að fallast á grunnforsendurnar í tilboði þeirra, annars verði ekkert talað meira við okkur. Ef þetta er rétt er afar langt á milli aðila og þá stefnir auðvitað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk fari strax að undirbúa sig undir það að gefa skýr skilaboð, að það verði stórt nei sem komi út úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað gerist þá? Samningsstaða okkar batnar. Við verðum í alþjóðlegu sviðsljósi. Það verður að nýta það sviðsljós betur en okkur tókst varðandi það að kynna þessi mál í fyrri tíð. Við þurfum að fara að gefa þessi skilaboð út mjög sterkt. Hér verður þjóðaratkvæðagreiðsla, annað er ekki boðlegt í stöðunni, of mikið ber á milli. Við eigum að nýta okkur það alþjóðlega sviðsljós sem verður á Íslandi þegar þetta nei kemur.