138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svo virðist sem það sé að verða einhvers konar hljóðlát breyting á ýmsum þáttum utanríkisstefnu okkar. Lengi hefur legið fyrir áhugi Færeyinga á mögulegri aðild að EFTA sem gæti líka skapað þeim aðild þar með að hinu Evrópska efnahagssvæði.

Nú kemur hins vegar fram að þeir telja sig ekki geta fylgt eftir þessum áhuga sínum vegna þeirrar óvissu sem aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu hefur skapað. Við skulum ekki gleyma því að það eru mjög náin viðskipti milli okkar og Færeyinga sem m.a. fara fram á grundvelli Hoyvíkursamningsins, sáttmála sem hefur í raun falið í sér að það er gildandi eins konar efnahagssvæði Íslands og Færeyja sem Færeyingar hafa síðan sýnt áhuga á að víkka út. En auðvitað skapar aðildarumsókn okkar, sem erum þeirra nánasti bandamaður, að Evrópusambandinu núna gríðarlega óvissu í þessum efnum eins og blasir við. Nú treysta þeir sér ekki til þess að fylgja eftir áhuga sínum af þeim ástæðum.

Hitt sem komið hefur fram er að vegna aðildarumsóknar okkar hafa viðræður um fríverslun milli okkar og Kína verið settar á ís nákvæmlega af sömu ástæðu, vegna þess að við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, afleiðingarnar af umsókn okkar að Evrópusambandinu eru að verða miklu víðtækari en menn áttuðu sig á. Mig rekur a.m.k. ekki minni til þess að við höfum rætt þennan þátt málsins þegar ákveðið var að sækja um aðild en í boði Samfylkingar og Vinstri grænna eru þessar afleiðingar núna að koma í ljós.