138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál til umræðu og gefa mér kost á að svara og koma á framfæri þeim viðhorfum sem ég gerði í utanríkismálanefnd á fundi á laugardaginn sem óskað var eftir af hálfu Sjálfstæðisflokksins.

Ég vil fyrst segja að menn eiga að vara sig á því að taka of mikið mark á fundargerðum af þessu tagi sem eru gerðar einhliða, oft skrifaðar upp eftir minni eftir á. Það er alveg ljóst að margt í því minnisblaði sem hv. þingmaður vísaði til er einfaldlega ekki rétt. Þarna er t.d. vísað til hluta sem íslenska ríkisstjórnin á enga aðild að og hefur aldrei látið sig dreyma um. Meðal þeirra spurninga sem hv. þingmaður varpaði til mín var hvort verið gæti að íslenska fjármálaráðuneytið hefði með aðstoð utanríkisráðuneytisins kokkað upp hugmyndir sem miðuðu að því að velta Icesave yfir á Breta. Ég vísa því að öllu leyti yfir á Breta eins og hv. þingmaður sagði. (Gripið fram í: Norðmenn.) Yfir á Norðmenn. Ég vísa því algerlega á bug. Þær hugmyndir sem koma fram í þessu minnisblaði eru reyndar raktar með þeim hætti að greint er frá því að tiltekinn sendiherra hafi tjáð þessum erindreka bandaríska stjórnkerfisins að hann — ég tek það a.m.k. þannig í þessu minnisblaði — og hans fjármálaráðuneyti hefðu verið að velta upp hugmyndum í þessa veru. Ég hef aldrei heyrt af því.

Ég vísa líka til þess að töluvert fyrr var sögusveimur á kreiki í norskum blöðum um þetta sem kom mér algerlega á óvart. Ég reyndi þá að grafast fyrir um hvaðan þetta væri komið en það er alveg ljóst að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki, a.m.k. ekki svo ég viti til, farið þess á leit við Norðmenn í gegnum Breta eða með einhverjum hætti að málið yrði leyst þannig að Norðmenn yfirtækju allt lánið og við mundum síðan borga þeim á hagstæðari kjörum. Eins og kemur fram í minnisblaðinu er rætt um að það sé vegna þess að Norðmenn ættu sennilega betra með að semja við þá. Við þetta kannast ég ekki. Ég vísa hins vegar til þess að hæstv. fjármálaráðherra fór til Noregs og ræddi við Norðmenn um ákveðna hluti. Allt kom það fram í fjölmiðlum á sínum tíma. Það var ekki þetta. Ég hef enga vitneskju um það.

Ég tek sömuleiðis algerlega skýrt fram að í mörgum atriðum er frásögn bandaríska sendifulltrúans ónákvæm miðað við það sem mínir starfsmenn hafa haldið fram við mig og ég hef enga ástæðu til að rengja þá í því. Ég þekki hvernig þeir vinna. Hv. þm. Bjarni Benediktsson veit líka hvernig þau gögn eru og sá gagnapakki sem við notum sem upplegg á fundum sem þessum. Margir þingmenn, þar á meðal formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa fengið slíka gagnapakka þegar þeir hafa farið að ræða við erlenda sendimenn, eins og hv. þingmaður um daginn þegar hann talaði við þann danska forustumann í stjórnmálum sem í dag tók við sem utanríkisráðherra Danmerkur. Hann hefur fullvissað mig um það, þ.e. ráðuneytisstjórinn, að það sé fráleitt að hann hafi lýst yfir ætluðu greiðslufalli íslenska ríkisins en hann kannast hins vegar við það að hann hafi í þessari samræðu komið á framfæri því sem var í umræðunni á þeim tíma. Og hvað var í umræðunni á þessum tíma? Það var t.d. það blað sem ríkisstjórnin sendi forseta Íslands daginn áður en hann synjaði. Þar kemur fram í tölulið 6 að ríkisstjórnin beini því til forsetans að ef málin fari svona aukist líkur á ætluðu greiðslufalli. Sömuleiðis kom það alveg skýrt fram í desember hjá hagfræðingum eins og Friðriki Má Baldurssyni en líka í frétt á Vísi núna fyrir skömmu þar sem hann greindi frá símtali sem hann átti við forseta Íslands. Hann segir opinberlega á visir.is að hann telji að fall þessara samninga í kosningum mundi auka líkur á greiðslufalli. Ég vísa sömuleiðis til þess sem seðlabankastjóri hefur sagt í spjalli af þessu tagi þar sem ákveðnum skoðunum er komið á framfæri, að það er alsiða að menn ræði um það hvað er í umræðunni hverju sinni.

Að því er varðar síðan þjóðaratkvæðagreiðsluna er alveg rétt að það kom fram hjá sendimönnum mínum á þessum fundi að almennt væru taldar miklar líkur á því að málið mundi falla í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er það sama og ég hef sjálfur sagt margoft í þessum ræðustóli. Þessi fundur var fyrst og fremst haldinn til eins, hann var partur af fundalotu sem utanríkisráðuneytið fór í og hefur fjórum sinnum farið í. Að þessu sinni var haft samband við alla sendiherra, öll sendiráð, og sömuleiðis voru sendiherrar okkar erlendis sendir til að tala við forustumenn í þeim ríkjum til að greiða (Forseti hringir.) fyrir því að efnahagsáætlun Íslands yrði afgreidd hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það var það sem þetta snerist um.