138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að eitt kom mér skemmtilega á óvart í þessu minnisblaði og það var að sjá fulltrúa hæstv. utanríkisráðherra a.m.k. reyna að tala máli Íslands og afla Íslandi stuðnings hjá öðrum ríkjum. Annað var hins vegar sýnu verra, sérstaklega yfirlýsingarnar um að hér væri hætta á greiðsluþroti ríkisins og þar fram eftir götunum, ég tala nú ekki um umræðuna um mikilvægi þess að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo fylgir í kjölfarið lýsing á því að breski sendiherrann á Íslandi hafi verið að hlutast til — að því er virðist — um íslenska pólitík með þeim hætti að reyna einhvern veginn að tengja fram hjá með því að fá Norðmenn til að lána Íslendingum peninga sem svo rynnu til Bretlands og fá þannig aðstoð Bandaríkjanna við að sannfæra Íslendinga um þetta og hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Eins og Ameríkanarnir segja: „You couldn´t make this stuff up“. Það væri ekki hægt að skálda þetta, hæstv. utanríkisráðherra.

Hver eru svör hæstv. utanríkisráðherra? Þau að það sem embættismenn hans hafi sagt á þessum fundum hafi í rauninni verið það sama og ráðherrar hafa lýst yfir og komið hafi til að mynda fram í bréfi til forseta Íslands. Þetta er alveg rétt og þarna erum við líklega komin að kjarna málsins, þetta er vandamálið. Þarna höfðu embættismennirnir í rauninni bara eftir það sem íslenskir ráðherrar hafa verið að segja úti um víðan völl, m.a. hæstv. viðskiptaráðherra sem ferðast um heiminn, gerir sérstakar reisur til þess að komast í beina útsendingu sem víðast og lýsa því yfir að Ísland sé nánast á hausnum, Ísland sé hið nýja Enron, munurinn sé líklega helstur sá að tjónið sé miklu meira og öll þjóðin sé sek en hjá Enron voru það fyrst og fremst einhverjir framkvæmdastjórar.

Er þetta ekki vandamálið, hvernig ríkisstjórnin hefur talað í þessu máli? Það er eingöngu endurspeglað í þessu minnisblaði frá bandaríska sendiráðinu.