138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:29]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ef við værum öll samviskusamir sagnfræðingar í þessum sal að leita sannleikans, hvaðan úr flokki eða með hvaða bakgrunn sem við kæmum, værum við a.m.k. sammála um eitt sem sagnfræðingar og það er að í leit að sannleikanum getur maður ekki bara tekið mark á einum skrásetjara af margra manna fundi, heldur þarf að tala við hvern og einn til þess að fá það fram sem þar fór fram. Ég tek því undir með þeim sem segja að við eigum líka að bera virðingu fyrir embættismönnum okkar sem mótmæla ýmsu sem kemur fram í þessu minnisblaði. Það breytir ekki því að auðvitað skiptir máli hvernig er talað, að við förum ekki fram með betlistaf heldur reisn þegar við tölum fyrir málstað Íslands. Ég trúi að það hafi verið reynt á allan hátt.

Ég ætla ekki að ílengjast við þetta minnisblað, heldur aðalatriðið sem er það hvernig við eigum núna að halda áfram að reyna að kynna málstað Íslands sem best.

Það er mikið talað um að Ísland sé einangrað og eitt og eigi sér enga vini í heiminum. Þetta tel ég vera rangt. Við getum horft til Grikklands, þótt það sé Evrópusambandsríki er það svo sannarlega eitt og látið hanga í snörunni, við getum horft til Eystrasaltsríkjanna o.fl. Við eigum okkur hins vegar ýmsa málsvara og okkar málstaður í Icesave hefur tekið miklum umbreytingum. Það hefur gerst með opinni umræðu, ekki með leynifundum heldur með opinni umræðu í fjölmiðlum og á öllum stigum. Þar þurfum við líka að umfaðma fullt af fólki, einstaklingum erlendis, sem talar okkar máli. Því eigum við að fagna og passa upp á. Við eigum líka að nýta okkur að það er raunveruleg ólga innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé notaður og honum misbeitt með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Þetta er það sem skiptir öllu máli.

Ég mótmæli því líka harðlega að ríkisstjórnarflokkarnir séu að (Forseti hringir.) reyna að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki svo. Það sem við erum hins vegar að reyna að gera er að ná betri niðurstöðu og betri samningum. (Forseti hringir.) Um það snýst málið.