138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það minnisblað sem við höfum hér verið að tala um, dregur upp mynd sem er í fullkomnu samræmi við málflutning stjórnarandstöðunnar allt síðastliðið ár, þ.e. að ríkisstjórnin hafi ekki talað nægilega sterkt fyrir málstað Íslands, unnið okkar sjónarmiðum stuðning, bæði hér heima og annars staðar. Nú er brugðist við þessum leka með því að óska eftir fundi með utanríkisráðherra Bandaríkjanna á árinu 2010. Þetta mál hefur verið opið síðan 2008. Þetta er auðvitað ekkert annað en „eftiráredding“, viðbrögðin við þeirri óþægilegu stöðu sem upp er komin. Út af fyrir sig er gott á meðan við höfum ekki fengið fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að settur sé þrýstingur á Bandaríkjamenn. Sjálfur hef ég farið og talað við þennan sendifulltrúa Bandaríkjanna hér á landi og vakið athygli á því að það sé óeðlilegt að tengja saman afgreiðslu Icesave-málsins og fyrirgreiðsluna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En aldrei mundi það hvarfla að mér að fara á hans fund og segja að við Íslendingar mundum lenda í stórkostlegum vandræðum ef þjóðin fengi að segja vilja sinn í þessu máli. Það er það sem gerðist hér. Það dugar auðvitað ekki, hvorki fyrir hæstv. utanríkisráðherra né aðra stjórnarliða, að draga í efa það sem skrásetjarinn hefur fært hér á blað vegna þess að við erum annars vegar með þann sem færði til bókar það sem gerðist á fundinum og hins vegar þá sem settu ekkert á blað. Þeir sem ekkert settu á blað og hafa einungis munnlegar frásagnir fram að færa hér á þinginu og í utanríkismálanefndinni eru í mun veikari stöðu en sá sem færði til bókar þegar að loknum fundinum það sem þar fór fram.

Það þýðir ekki að tala um ónákvæma frásögn og það dugar heldur ekki að vísa til þess að þarna hafi verið talað á sömu nótum og í bréfi til forseta Íslands áður en hann synjaði lögunum staðfestingar, vegna þess að það bréf var auðvitað dæmalaust rugl, (Forseti hringir.) dómsdagsspá, svartsýnisraus, sem á ekki við nein rök að styðjast, hræðsluáróður sem átti að hræða forsetann (Forseti hringir.) alveg eins og það átti að hræða þjóðina frá því að fella lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.)