138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér fannst formaður Framsóknarflokksins fara mjög hættulega nálægt því að lýsa því yfir að starfsmenn utanríkisráðuneytisins séu ekki að segja satt. Ef formaður Sjálfstæðisflokksins hefði komið á þann fund sem hann sjálfur bað um en hafði ekki tíma til að sinna, hefði hann getað spurt þá sjálfa út úr. Hann hefði getað ráðið sjálfur af samtölum við þá hvort það væri rétt að koma hér og tala með þeim hætti sem hann gerir.

Ég tek hatt minn ofan fyrir formanni Framsóknarflokksins sem hitti naglann nákvæmlega á höfuðið. Mér er mjög annt um að það sé ekki sneitt að embættisheiðri minna manna, mér er hins vegar alveg sama um það þó menn sneiði að sjálfum mér. Það var hárrétt sem formaður Framsóknarflokksins sagði og sem ég kom á framfæri í utanríkismálanefnd eins og þessir tveir embættismenn. Þeir sögðu nákvæmlega ekkert annað en það sem fulltrúar framkvæmdarvaldsins hafa verið að segja, bæði í því bréfi sem þeir sendu forseta Íslands og sömuleiðis hafa þeir margoft sagt það í þessum stól. Það er að þeim sem menn eiga að beina sínum geiri.

En til þess að öllu sé til haga haldið fyrir hv. þm. Bjarna Benediktsson og hann hefði heyrt, hefði hann komið á fundinn sem hann sjálfur óskaði eftir en hirti ekki um að mæta á, greindi ráðuneytisstjórinn þar frá því sem vantaði t.d. í frásögn sendifulltrúans, það var líka gerð grein fyrir andstæðum skoðunum: Ef það ætti að láta Icesave-málið ráðast á hinum lögfræðilegu álitaefnum sem uppi eru, væru Íslendingar reiðubúnir til þess og þeir teldu sig hafa fulla efnahagslega burði til þess að komast í gegnum það. Það er nákvæmlega það sama og ég sagði í viðtali við útlendan fjölmiðil í dag og í gær og segi væntanlega líka á morgun.

Frú forseti. Þetta var nú það sem ég vildi segja núna.

En varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna ættu leiðtogar (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar að muna eftir því hvað þeir sögðu tveimur dögum eftir að forsetinn synjaði lögunum staðfestingar. (Forseti hringir.) Hvað sögðu þeir? Þeir réttu fram útrétta sáttarhönd, töluðu um að það ætti að (Forseti hringir.) láta á það reyna að ná samningum og a.m.k. annar þeirra sagði að ef það gerðist (Forseti hringir.) væri hann reiðubúinn til þess að skoða það að það yrði ekki þjóðaratkvæðagreiðsla. (Gripið fram í: Er komin samþykkt?) (BjarnB: Við höfum staðið við það.)