138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[14:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu. Ég held að það horfi sannarlega til framfara. Það er mikilvægt að skapa sem mesta sátt um skipan dómara vegna þeirra deilna sem við þekkjum til á síðustu árum og vísað hefur verið hér til, bæði um skipan héraðsdómara og hæstaréttardómara. Tilgangur málsins er eins og lýst var af hæstv. dómsmálaráðherra einmitt sá að skapa sem mesta sátt um skipan dómara, enda mikilvægt í samfélagi okkar að sem allra mest sátt sé um dómstólana og ekki síst um Hæstarétt. Kannski þess vegna leyfi ég mér að leggja áherslu á þá umræðu sem hér hefur áður verið, að komi slík skipan til kasta Alþingis eins og gert er ráð fyrir samkvæmt frumvarpinu ef ég hef skilið það rétt, greini hæfisnefndina og ráðherrann á komi til kasta Alþingis um skipanina, dugi hér ekki einfaldur meiri hluti heldur þurfi til þess aukinn meiri hluta. Ég held að það væri óráð að opna fyrir það að hér gæti einfaldur meiri hluti ráðið í jafnmikilsverðum málum. Það væri kannski fullmikið í lagt að kalla til þrjá fjórðu eða fjóra fimmtu en það er e.t.v. hæfileg krafa að tveir þriðju hlutar þingheims séu sammála niðurstöðunni. Um verður að ræða ákvarðanir sem eiga að standa lengi og sem mikil og víðtæk sátt þarf að standa um. Bið ég hv. nefnd að skoða það, enda hélt hæstv. ráðherra því til haga við umræðuna að þessi sjónarmið hefðu komið fram við upphaf umfjöllunarinnar.