138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:12]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og að það skuli vera að koma fram skýrari og betri reglur um það hvernig skipa skuli dómara á Íslandi. Ég er þeim kostum gæddur að vera eðlislægt tortrygginn á allt vald, ekki síður dómsvald en annað vald. Ég tel að skipanir dómara oft og tíðum undanfarin ár og jafnvel áratugi hafi einfaldlega rýrt trúverðugleika dómstóla og í sumum tilfellum allrækilega þegar farið var eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði „langt út fyrir gráa svæðið“.

Hér er annars vegar um að ræða trúverðugleika í reynd sem erfitt er að henda nákvæmar reiður á en hér er líka um að ræða trúverðugleika í ásýnd sem skiptir meginmáli í þessu efni. Í ásýnd blasir það við að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa skipað alla hæstaréttardómara og alla héraðsdómara, ef ég man rétt, og þegar menn gefa sér það hvernig stjórnmálum hefur verið háttað á Íslandi frá lýðveldisstofnun er trúverðugleikinn í ásýnd þannig að það hefur kannski fallið meira á hann en þurft hefði að gera. Ég fagna því þess vegna að hér sé verið að gera bragarbót á og takmarka vald ráðherra til skipunar dómara.

Að mínu mati mætti ganga lengra í því að takmarka þetta vald með því t.d. að hafa nefndina stærri sem velur þau dómaraefni sem hæfust þykja. Ég vildi líka gjarnan fá skilgreiningu á því hver er vel metinn borgari. Er ég vel metinn borgari eða er hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vel metinn borgari? (BJJ: Já, já.) Hvað er vel metinn borgari? Nú situr hv. þm. Guðbjartur Hannesson í hliðarherbergi með fingurinn upp í sér, er hann vel metinn borgari ef hann hagar sér með þeim hætti? (GuðbH: Ég er mjög hugsi yfir þessu.) Ég vildi gjarnan fá þetta á hreint. En að öllu gamni slepptu fagna ég því, þó að ég vildi sjá e.t.v. stærri nefnd í þessu máli.

Hvað það varðar að ráðherra gengi e.t.v. gegn óskum nefndar í slíku máli og málinu yrði vísað beint til þingsins, ég tel það mjög mikilvægt og það verði öryggisventill eins og kallað er á þessu máli, þannig að hægt verði að taka á því með annars konar umræðu og orðræðu af öðrum hópi fólks. Jafnframt tel ég að einfaldur pólitískur meiri hluti dugi ekki til vegna þeirrar einföldu ástæðu að dómsmálaráðherra hvers tíma er valinn af einföldum pólitískum meiri hluta Alþingis. Ef sá sami meiri hluti ætti svo að staðfesta eða hafna ákvörðun þess ráðherra yrði einfaldlega litið á málið annaðhvort sem algjörlega pólitískt eða sem vantraust á ráðherrann af hans eigin stjórnarliðum og það er kannski heldur ekki gott. Ég tek því undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að aukinn meiri hluti þingsins, hvort sem hann væri 2/3 eða 3/4, yrði til þess að valið yrði betra og hlutlausara og það yrðu einfaldlega minni deilur um málið.

Að öðru leyti kýs ég ekki að tjá mig meira um málið á þessu stigi. Ég tel að það sé brýn þörf á þessu og ég fagna því. Ég hefði kannski viljað sjá frumvarpið afturvirkt líka en það er kannski til of mikils ætlast að fara að endurskipa á ný alla dómara á einu bretti eða kannski þremur brettum. Ég tel að það væri e.t.v. skref í rétta átt líka, en alla vega enn sem komið er er þetta frumvarp til mikilla bóta og ég fagna því.