138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla sem hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra hefur flutt en hún flutti hér ágæta ræðu um breytingarnar. Þetta er mjög veigamikið atriði, mjög veigamikið mál sem við erum að ræða og kemur inn á stjórnarskrána sem ég hef margoft sagt að sé ekki nægilega skýr að þessu leyti. Til dæmis er hvergi nefnt í stjórnarskránni orðið „hæstiréttur“. Hæstiréttur er ekki til í stjórnarskránni og væri ekki vanþörf á að geta eitthvað um hann, vegna þess að hann er ein af burðarstoðum þrískiptingar valdsins. En sem kunnugt er er þrískipting valdsins byggð á heimspeki, aðallega franskra og fleiri þjóða heimspekinga, um það hvernig hægt er að vernda borgarann fyrir ríkinu og valdinu.

Það er alltaf vandi þegar þessar þrjár súlur ríkisins fara að skipta sér hver af annarri. Alþingi er t.d. með fjárveitingavald og hefur þar með áhrif á dómsvaldið. Það gæti svelt dómsvaldið út ef dómsvaldið væri ekki sérstaklega hlýðið. Sama gildir um fjárveitingavaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu, það gæti beitt sömu tökum þar. Síðan er það þannig að ráðherrar eru jafnframt þingmenn, sem er dálítið skrýtin staða, að þeir eru þar bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald og hefur margoft verið sagt að sé ekki nægilega gott. Ég er í hópi þeirra sem telja að því þurfi að breyta. Svo kemur að skipun dómara. Ráðherrar sitja í skjóli Alþingis og þurfa að svara til þess, en eðli máls samkvæmt þar sem dómararnir eru þarna mitt á milli eða á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, eru þeir hvorki kosnir né þurfa þeir að svara til gagnvart Alþingi eða framkvæmdarvaldinu. Þannig að þeir eru óháðir. Það gleymist oft, mjög oft, að fólk breytist. Menn halda að einhver sem skipar einhvern ráði því hvernig sá aðili verði. Menn hafa oft farið flatt á því að reikna með því að sá sem þeir skipuðu muni hlýða þeim eftir það, því hann breytist og breytir um skoðun og getur gjörsamlega unnið gegn sínum skapara.

Það er mjög mikilvægt fyrir borgarann að vel takist til um skipan dómara, vegna þess að dómarar fjalla um alls konar ágreining sem lagaramminn sem löggjafinn setur ætti að tryggja, en oft eru á því rökrænar villur eða eitthvað óljóst og þá kemur til kasta dómstóla og alveg sérstaklega kemur til kasta Hæstaréttar sem hér er verið að fjalla um m.a., það er líka fjallað um héraðsdómara. Hæstiréttur getur í rauninni fyllt út í lög. Síðan hefur Hæstiréttur hlutverk sem er ekki einu sinni skilgreint, því hann er ekki nefndur í stjórnarskránni, sem er að vera stjórnlagadómstóll, þ.e. fjalla um það hvort lög sem Alþingi setur standist stjórnarskrá. Þetta vantar líka inn í stjórnarskrána. Til dæmis vantar það sem ég hef bent á: Hæstiréttur ætti aldrei að dæma lög ógild nema hann sé fullskipaður, þ.e. allir hæstaréttardómarar taki þátt í þeirri athöfn. Ég hefði jafnvel viljað að það yrði að vera meiri hluti eða að allir sem einn yrðu að vera á þeirri skoðun. Það vantar ákvæði í stjórnarskrána um það þegar Hæstiréttur fer í hlutverk stjórnarskrárdómstóls.

Ég nefndi t.d. eins og í sumar að þingsályktunartillaga frá Alþingi um að sækja um aðild að Evrópusambandinu stæðist varla stjórnarskrá. Hún gerir það ekki. Samt ályktar Alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu þó að stjórnarskráin banni það. Ég get ekki kært. Það getur enginn kært. Það getur enginn sagt við Hæstarétt: „Heyrðu, skoðaðu hvort þessi þingsályktunartillaga sé í einhverju samræmi við stjórnarskrána.“ Þetta vantar. Í Þýskalandi er þetta t.d. mjög ákveðið. Þar er ákveðinn stjórnlagadómstóll sem tekur á slíkum málum.

Hér er lagt til, og ég vil gjarnan að menn skoði það mjög nákvæmlega, að í stað þess að Hæstiréttur gefi álit á umsækjendum, sem er dálítið ankannalegt, hann er í rauninni eins og lokaður klúbbur og hann getur passað að enginn óæskilegur komi inn í klúbbinn og haldið klúbbnum við en það er lagt til að þessi kaleikur sé tekinn frá Hæstarétti og í rauninni falinn Hæstarétti með því að hann tilnefni tvo menn, en af þeim skal einn ekki vera dómari, sem er jákvætt finnst mér, hann getur þá ekki skipað nema einn af sér í þennan dóm. Síðan eru tveir aðilar utan úr bæ, báðir lögfræðingar, það eru samkundur sem tilnefna tvo, hvor sinn. Svo er, merkilegt nokk, einn kosinn af Alþingi. Þannig að það er löggjafarsamkundan, þ.e. pólitíkin, þ.e. stjórnmálin, sem kjósa einn af þessum fimm. Það er spurning hvort skipun dómara eigi að vera stjórnmál, af því dómarinn á nú að vera hlutlaus og nokkuð laus við áhrifin sem verða til á Alþingi, en Alþingi setur rammann utan um þjóðfélagið eða á að gera það, það er reyndar mjög sjaldgæft, frú forseti, að Alþingi semji frumvörp sem verða að lögum, því miður. Ég hef marg-, margoft bent á það Alþingi sinni bara ekki löggjafarstarfinu sem slíkt, en það er önnur Ella.

Þetta er sem sagt mjög mikilvægt og ég vil gjarnan að hv. allsherjarnefnd, sem ég á nú ekki sæti í, fari mjög nákvæmlega í gegnum hvernig þetta virki, hvernig þetta fer fram og hvort þetta sé rétt. En ég er alveg sammála því að það þurfi kannski ákveðinn meiri hluta á Alþingi til þess að samþykkja ef dómsmálaráðherra, þ.e. framkvæmdarvaldið, fellst ekki á niðurstöðuna sem þessi nefnd kemst að, þá þurfa það að vera mjög veigamikil atriði sem dómsmálaráðherra bendir á og þá þurfi meiri hluta á Alþingi til þess að fallast á þau rök, þ.e. þegar dómsmálaráðherra ætlar að velja einhvern sem þessi dómnefnd er ekki ásátt með, hefur ekki sett í fyrsta sæti.

Ég held að þetta sé allt mjög til bóta, öll þessi umræða og hlakka eiginlega til að sjá niðurstöðu úr nefndinni. Ég vona að nefndin fái til sín marga og góða gesti og ræði málið mjög ítarlega, fái sjónarmið sem flestra, ekki bara lögfræðinga, heldur líka annarra. Þetta mál varðar ekki lögfræðinga, þetta varðar hinn almenna borgara sem á allt sitt undir því að dómsvaldið og dómarar skeri heiðarlega og sanngjarnt og með réttsýnum hætti úr deilumálum sem við vísum milli borgaranna innbyrðis eða milli borgaranna og ríkisvaldsins.