138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:42]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég var kominn á fremsta hlunn með að falla frá orðinu vegna þess að ég hafði hugsað mér að hefja mál mitt á að þakka fyrir einstaklega góða og málefnalega umræðu um þarft og tímabært frumvarp sem kemur frá hæstv. dómsmálaráðherra. Það er einstaklega vel unnið og ber góðum vilja og góðri getu fagurt vitni þótt ég vilji ekki ganga svo langt í hrósi mínu í garð dómsmálaráðherra að hvetja hana til að ganga í Framsóknarflokkinn. Hún er ágæt eins og hún er. En þá gufaði þessi umræða upp og fór að snúast um stjórnlagaþing sem er sjálfsagt ekki síður mikilvægt mál en það sem var til umræðu. Ég ætla ekki að fjalla um stjórnlagaþing og skoðanir mínar á nauðsyn þess undir þessum lið heldur vænti ég þess að fá tækifæri til að tjá mig um það mál við annað tækifæri.

Það sem var gleðiefni við þá umræðu sem var komin á þó nokkurt flug áðan var að það var einlægur vilji og samstaða um að vinna að lagabótum þeim sem felast í þessu frumvarpi. Enginn auglýsti eftir því að við héldum áfram að hjakka í því frumstæða fari að búa í þjóðfélagi þar sem pólitískir dólgar geta skipað vildarvini sína í æðstu dómarasæti landsins. Enginn auglýsti eftir því að halda því ástandi áfram. Við búum við slíkt ástand og það stendur upp á okkur sem sitjum hér á Alþingi að breyta því. Framkvæmdarvaldið hefur lagt fram frumvarp til að breyta þessu ástandi og ég fagna því frumvarpi ákaflega.

Ég er svo heppinn að eiga sæti í allsherjarnefnd þar sem þetta frumvarp verður tekið til ítarlegrar meðferðar og ég sé engin stór ljón í veginum fyrir því að þetta mál geti haft tiltölulega skjótan og farsælan framgang í þessari nefnd, eftir því sem fólk hefur talað í þessari umræðu. Það er greinilegt að það þarf að fínpússa einhver útfærsluatriði í sambandi við skipan dómara. Það þarf að huga nákvæmlega að því hvernig valnefnd er saman sett, hversu langt vald hennar nær og hvaða leiðir dómsmálaráðherra hverju sinni á að hafa ef það er bil milli vilja hans og vilja valnefndarinnar. Það virðist ekki vera spurning um þann vilja að Alþingi skeri úr málum og eigi síðasta orðið í sambandi við skipan dómara og þá er þetta helst spurning um hversu aukinn meiri hluta þarf til að skipa dómara. Mér finnst það líka vera stór spurning hvort aukinn meiri hluta Alþingis á ekki að þurfa til að samþykkja alla dómara sem skipaðir eru í þessu landi.

Þetta eru útfærsluatriði sem á að vera tiltölulega auðvelt að ná samstöðu um í allsherjarnefnd ef sá tónn sem hefur verið sleginn hér í umræðunni ríkir áfram. Ég vil ítreka ánægju mína með að þær stundir koma á Alþingi að óbreyttur þingmaður eins og sá sem hér stendur eygir tækifæri til að taka þátt í að bæta þau lög sem gilda í landinu og stuðla með því að framförum. Að lokum ítreka ég þakkir mínar til dómsmálaráðherra fyrir vel unnið frumvarp og vil að endingu vara hana við því að láta fallerast af nokkrum stjórnmálaflokki.