138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

374. mál
[15:54]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Í 3. gr. laganna er kveðið á um að íslenska ríkið greiði þjóðkirkjunni árlegt framlag á grundvelli samninga milli sömu aðila um kirkjueignir og prestssetur en sá samningur var gerður 10. janúar 1997. Í þeim samningi var samið um að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgdu, að frátöldum prestssetrum, væru eign íslenska ríkisins og andvirði seldrar jarðar færi í ríkissjóð. Á móti mundi ríkið skuldbinda sig til að greiða laun tiltekins fjölda presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins. Í 60. gr. laganna er kveðið svo á um að ríkið standi skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupa, ákveðinna fjölda presta, prófasta og starfsmanna Biskupsstofu.

Vegna þess ástands sem skapast hefur í fjármálum ríkisins hefur á árinu 2010 verið gerð sú krafa að framlög til þjóðkirkjunnar lækki frá því sem verið hefur tímabundið. Þann 10. nóvember 2009 var því gerður viðaukasamningur milli ríkisins og þjóðkirkjunnar. Í samningnum kemur fram að sú krafa er gerð til þjóðkirkjunnar að að frátöldum launa- og verðlagshækkunum, sem nema 37 millj. kr., er á árinu 2010 gerð 160 millj. kr. hagræðingarkrafa til þjóðkirkjunnar.

Jafnframt er í samningnum tekið fram að gagnvart Kristnisjóði er á árinu 2010 gerð 9 millj. kr. hagræðingarkrafa umfram þá lækkun sem lágmarkslaun 15 prestsembætta hafa tekið. Var viðaukasamningurinn lagður fyrir síðasta kirkjuþing og samþykktur þar. Vegna þessara breytinga á fjárframlögum til þjóðkirkjunnar er nauðsynlegt að gera breytingu á lögunum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar svo lögin verði til samræmis við það sem kveðið er á um í viðaukasamningnum. Er því í frumvarpi þessu lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að þrátt fyrir ákvæði laganna skuli skuldbinding ríkisins samkvæmt 60. gr. laganna á árinu 2010 vera þannig að framlög ríkisins samkvæmt sérstökum samningi milli ríkisins og þjóðkirkjunnar muni lækka um 160 millj. kr. og jafnframt muni framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs lækka um 9 millj. kr. á árinu 2010.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.