138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

almenn hegningarlög.

45. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa athugasemd. Framsetning refsiákvæða er auðvitað umhugsunarefni. Ég hef sagt það og ég held að það komi fram í greinargerðinni að fjöldi þekktra hugtaka er í hegningarlögum sem dómstólar hafa mótað og þróað og fylgt gegnum tíðina. Ég nefni rán, morð og ærumeiðingar. Nauðgun er líka þekkt hugtak og dómstólar hafa fjallað mjög mikið um það.

Ég hygg hins vegar að þegar þetta er tengt við beitingu ofbeldis, hótanir og annars konar ólögmæta nauðung þrengi það möguleika fyrir dómstólana fremur en hitt. Ég held að það verði ekkert bakslag í þessum málum. Það hefur líka gerst, eins og ég sagði áðan, að Hæstiréttur hefur m.a. fótað sig inn á þá braut að taka meira tillit en áður til andlegra afleiðinga, bæði tímabundinna og varanlegra. Miðað við hvernig lögskýringargögnin eru sett upp held ég að það eigi ekki að valda neinum misskilningi um hvert frumvarpið stefnir. Það stefnir svo fjarri því að auka á einhverja varfærni í málum. Það er ekki mín skoðun, en þetta er samt umhugsunarverð spurning.