138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[16:42]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er að lögin taka eftir sem áður til þess fyrirtækis sem kýs að standa utan stéttarfélaga. Eftirlitsaðilum er heimilt að fylgjast með að þar séu virtir kjarasamningar í samræmi við lögin um starfskjör launafólks sem gera ráð fyrir þeirri grundvallarreglu að þar séu a.m.k. lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum á hverjum tíma. Þetta er sú leið sem við höfum farið hér á Íslandi til þess að tryggja mannsæmandi laun og ákveðin grundvallarlífsskilyrði á vinnumarkaði. Aðrar þjóðir hafa farið aðrar leiðir. Það eru dæmi í öðrum löndum um lögbundin lágmarkslaun og aðrar aðferðir sem farnar eru.

Ég held að ef við horfum til baka megi almennt segja að íslenski vinnumarkaðurinn hafi jákvæð einkenni. Við höfum náð með því að virkja aðila vinnumarkaðarins og fela þeim ríka ábyrgð á framkvæmd reglna á vinnumarkaði, höfum náð að tryggja réttlátan vinnumarkað. Við höfum náð að tryggja launaþróun sem er fyllilega sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og við höfum líka náð að halda atvinnuleysi í lágmarki. Við höfum náð að halda sveigjanleikanum á vinnumarkaði með besta móti sem gerist þannig að ég held að þegar við horfum á íslenskan vinnumarkað og löggjöf og reglusetningu um hann í heild getum við ekki annað en verið stolt af árangrinum. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt þegar við þurfum að bregðast við nýjum vanda eins og þessum að við beitum þeirri aðferðafræði sem vel hefur gefist hingað til.