138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[16:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort góðar afleiðingar af einhverju sem menn hafa gert hingað til séu í lagi þó að það brjóti stjórnarskrá, ég var ekki að tala um það. Ég var að spyrja um hvort menn hefðu velt fyrir sér að þetta bryti hugsanlega stjórnarskrá, því að oft er það þannig að félög vinna gegn vissum hópi félagsmanna sinna. Þeir vilja kannski stofna nýtt félag til þess að vinna að hagsmunum sínum og hafa til þess heimild í stjórnarskránni en eru neyddir til þess að lúta forsvari félags sem þeir vilja ekki vera í og vinna gegn hagsmunum þeirra að þeirra mati. Þessi hópur þarf svo að hleypa þeim inn í fyrirtækin og lúta leiðsögn þeirra að öllu leyti.

Þetta frumvarp neglir að sjálfsögðu niður og steypir í fast mót það kerfi stéttarfélagsaðildar sem við höfum í dag, sem ég hef oft gagnrýnt að sé farið að verða ansi mikið stofnanakennt. Það getur endað með því að verða stéttarfélag ríkisins, þ.e. hið opinbera stéttarfélag sem menn geta ekki stofnað stéttarfélag gegn. Þetta á líka við um launþega. Oft og tíðum finnst launþegum stéttarfélögin sín, þessi hálfopinberu sem eru búin að fá mjög sterkan stimpil í öllu kerfinu, vinna gegn hagsmunum sínum. Þeir vilja jafnvel stofna stéttarfélög en þeir mega það ekki út af ýmsum ákvæðum sem eru í samningum atvinnurekenda og launþega. Þetta getur því farið illa með vissa aðila, launþega sem fyrirtæki. Þess vegna spyr ég að því hvort það hafi verið skoðað við samningu þessa frumvarps að það brjóti örugglega ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi.