138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[16:59]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi til mín spurningu um aðgerðir varðandi að auka virkni atvinnulausra og nefndi jafningjafræðslu í því samhengi. Ég hef sett Vinnumálastofnun það markmið að ekki skuli líða lengra en þrír mánuðir frá því að einhver verður atvinnulaus og þangað til hann fær tilboð um virkni eða vinnu. Við stefnum að því að ná þessu markmiði fyrir ungt fólk fyrir 1. apríl nk. og við náum því fyrir alla aðra í haust. Það er mjög brýnt verkefni. Vinnumálastofnun hefur ekki haft undan við að vinna í þessum virkniaðgerðum vegna þess gríðarlega fjölda fólks sem skyndilega varð atvinnulaust en við erum að vinna að því. Það er mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður nefnir réttilega, að byggja á fjölbreyttum lausnum hérna. Það erum við að gera með alls konar lausnum þar sem við nýtum t.d. jafningjafræðslu. Við notum t.d. þá hugmynd mikið í þjónustu okkar við unga atvinnuleysingja þar sem við ætlum að byggja á reynslu atvinnulausra til að hjálpa öðrum atvinnulausum. Með virkni tryggjum við best að ekki sé misnotkun í gangi í atvinnuleysistryggingakerfinu.

Þessari löggjöf er ekki fyrst og fremst ætlað að taka á svikum í atvinnuleysisbótakerfinu heldur líka að tryggja að farið sé að grundvallarreglum kjarasamninga sem mikill misbrestur var á árum saman. Það var alvarlegt samfélagslegt vandamál þegar inn hrundi saklaust fólk sem ekki gat borið hönd fyrir höfuð sér, það vissi ekki um grundvallarreglurnar varðandi hvaða launum það átti rétt á í krafti íslenskra kjarasamninga og gat ekki fengið þau kjör sem því bar. Þetta er einföld, hagkvæm leið sem felur ekki í sér mikil ríkisafskipti til að ná því mikilvæga samfélagslega markmiði.