138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[17:03]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað svo að eftir sem áður er félagafrelsi í landinu og fólk ræður hvar það skipar sér í félög og satt að segja er umtalsvert nýgengi í stéttarfélögum. Ég held líka, eins og kom fram í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan, að sé auðvitað álitamál hvernig taka beri á þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum árum. Auðvitað vildu margir helst að það væru opinberir eftirlitsmenn sem færu á vinnustaðina til að fylgjast með þessu öllu saman. Ég hafði alltaf ákveðnar efasemdir um það og ég verð að segja að mér hugnast það mun betur út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefnir hér líka að það séu samtök aðila vinnumarkaðarins sem hafi eftirlit með framkvæmd kjarasamninga og sinni þessu. Ég held að það orki mjög tvímælis að búa til einhverjar stormsveitir opinberra embættismanna sem fari inn í fyrirtæki og skoði alla hluti. Stilla á slíku í hóf og þannig leggjum við þetta mál upp.

Hér er farin allra, allra mildasta leið til að ná mjög brýnum og mikilvægum samfélagslegum markmiðum. Það eru nefnilega alltaf takmörk fyrir því, eins og hv. þingmaður nefnir, hversu langt er hægt að ganga í því að veita fyrirtækjum sjálfdæmi í því t.d. að virða grundvallarreglur kjarasamninga. Við sáum það á undanförnum árum hversu mikil áhrif það hafði þegar verkalýðshreyfingin gekk fram fyrir skjöldu og réði sérstaklega til sín fólk með þekkingu á þeim tungumálum sem flestir verkamannanna sem hingað koma í byggingarframkvæmdirnar töluðu. Það sýndi sig hversu mikinn árangur það starf hafði og hversu mikilvægt var að nálgast fólk með þeim jákvæða hætti sem verkalýðshreyfingin raunverulega gerði, að hér var verið að verja rétt fólks til að þurfa ekki að þola lægri laun en lágmarkskjör sem kjarasamningar kveða á um. Það eru grundvallarmannréttindi og þau erum við að verja.