138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 122 um Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða. Meðflutningsmenn mínir eru Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir, svo tillagan er fram borin af sex þingmönnum Norðvesturkjördæmis. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skilgreina Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða, m.a. á sviði atferlis- og veiðarfærarannsókna og þorskeldis. Skilgreiningin verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum. Þetta verði gert í tengslum við þá heildarstefnumótun sem fram undan er af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins í málefnum háskóla landsins og sem liður í því að:

marka hverjum landshluta sérstöðu í rannsóknum og kennslu, og

leggja grunn að uppbyggingu og verkaskiptingu á sviði rannsókna og háskólakennslu á landsvísu.“

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún lýtur að stefnumörkun háskólastarfs í landinu annars vegar og markvissum stuðningi og stefnu fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni hins vegar.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað heildarendurskoðun á málefnum háskólanna. Slík endurskoðun kallar á skýrari stefnumótun en verið hefur þar sem umsvif háskólastarfsemi hafa aukist ört í landinu undanfarin ár. Við mótun mennta- og rannsóknastefnu háskólastigsins er mikilvægt að horfa til sérstöðu háskólasvæðanna og nýta sem best það atgervi og þær stofnanir sem fyrir eru í hverjum landshluta.

Þegar taka þarf ákvarðanir í atvinnumálum er einnig mikilvægt að líta til nýsköpunar- og þróunarmöguleika í samstarfi atvinnufyrirtækja og háskólaumhverfisins.

Á Vestfjörðum hefur nú þegar þróast háskóla- og rannsóknaumhverfi með Háskólasetri Vestfjarða, Rannsókna- og fræðasetrum Háskóla Íslands í Bolungarvík og á Patreksfirði, Vestfjarðaakademíunni, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, sem raunar lagði grunn að háskólastarfi á Vestfjörðum fyrir tilkomu háskólasetursins, útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði, Matís og fleiri aðilum.

Atvinnufyrirtæki og sveitarfélög í fjórðungnum sameinuðust fyrir fjórum árum um stofnun Háskólaseturs Vestfjarða ásamt háskólunum í landinu, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og fleirum. Háskólasetrið hefur nú byggt upp námsleið í haf- og strandsvæðastjórnun í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Á sama tíma hefur Hafrannsóknastofnunin á Ísafirði verið að gera merkilegar veiðarfærarannsóknir í samstarfi við Impru á Nýsköpunarmiðstöð og Hraðfrystihúsið Gunnvör og Matís hafa verið með þorskeldistilraunir, auk þess sem ný rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík og á Patreksfirði, Náttúrustofa Vestfjarða og Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands hafa sinnt umhverfis-, snjóflóða- og dýralífsrannsóknum, svo að nokkuð sé nefnt.

Nú þegar ákveðið hefur verið að skerpa stefnumótun íslenska háskólastigsins, liggur beinast við að byggja á þeim grunni sem þegar er til orðinn. Þannig telja tillöguflytjendur eðlilegast að miða rannsókna- og fræðastarf á Vestfjörðum við málefni hafsins og strandsvæða almennt. Slík skilgreining mundi efla rannsóknastofnanir á Vestfjörðum og einnig þau atvinnufyrirtæki sem nú þegar sinna rannsóknum og þróunarstarfi.

Vestfirðir eru náttúruleg rannsóknastofa á sviði sjávarlíffræði, fiskeldisrannsókna, veiðarfærarannsókna, sjávarvistkerfa og stranda, hafstrauma og annarra umhverfisþátta sem tengjast hafinu. Rannsókna- og fræðasetur þau sem fyrir eru hafa góð tök á innbyrðis samstarfi sem og samstarfi við atvinnufyrirtæki í nágrenninu. Þar má nefna vélsmiðjur, rafmagnsverkstæði, sjávarútvegsfyrirtæki, t.d. þorskeldisrannsóknir Hraðfrystihússins Gunnvarar, og hátækniframleiðslu eins og 3X Technology vinnur að. Þetta þróunar- og rannsóknastarf mætti efla enn frekar og nýta í þágu háskólastigsins og atvinnulífsins á Vestfjörðum.

Í sóknaráætlun Fjórðungssambands Vestfirðinga sem samþykkt var á síðasta þingi þess er lögð áhersla á aukinn stuðning við þróunar- og nýsköpunarstarf innan sjávarútvegsins, t.d. í fiskeldi, kræklingarækt, sjávartengdri ferðaþjónustu og nýjungum í matvælaframleiðslu. Þar er einnig hvatt til þess að rekstrargrundvöllur og núverandi námsframboð Háskólaseturs Vestfjarða verði tryggt til framtíðar ásamt nauðsynlegu fjármagni til frekari uppbyggingar nýrra námsbrauta. Í sóknaráætluninni er skorað á stjórnvöld að tryggja áfram fjármögnun til rannsóknastarfs á Vestfjörðum og lagt til að rannsóknamiðstöð í þorskeldi verði staðsett þar.

Í þessu sambandi má einnig minna á að í vaxtarsamningi Vestfjarða, sem er hluti af byggðaáætlun landshlutanna og er raunar í greinargerðinni nefnd „gildandi byggðaáætlun“ sem gæti valdið misskilningi en þar er átt við vaxtarsamning Vestfjarða, er litið til nálægðarinnar við auðlindir sjávarútvegsins, þ.e. fiskimiðin, og þar er hvatt til þess að byggt verði upp öflugt rannsóknaumhverfi í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, t.d. um innfjarðarannsóknir, uppbyggingu kræklingaræktar og önnur nýsköpunar- og þróunarverkefni á sviði sjávarútvegsins.

Þannig er þessi þingsályktunartillaga, frú forseti, í góðu samræmi við þá stefnumótun stjórnvalda og stefnumótun sveitarfélaganna sjálfra og atvinnulífsins sem þegar hefur komið fram.

Í nágrannalöndum okkar er að finna ýmis dæmi þess hvernig öflugar háskóla- og rannsóknastofnanir hafa orðið til á grundvelli skilgreiningar sérstöðu af því tagi sem hér er lögð til. Má til dæmis nefna háskólann í Tromsö í Noregi, sem hefur skilgreint sig á alþjóðavísu sem miðstöð rannsókna og kennslu í málefnum haf- og strandsvæða á norðurslóð, m.a. varðandi lífríki sjávar, veiðar, vistkerfi, loftslag, vatna- og sjávarlíffræði, lífsskilyrði sjávardýra, fæðuval og fæðuframboð, auðlindastjórnun og umhverfishagfræði svo að nokkuð sé nefnt.

Frú forseti. Á þjóðfundi sem nýlega var haldinn vestur í Bolungarvík um málefni Vestfjarða kristallaðist mjög skýrt hversu sjávarútvegurinn er mikilvæg undirstaða fyrir atvinnulíf og búsetu á Vestfjörðum. Þróun undanfarinna ára hefur sýnt okkur að sjávarútvegur á Vestfjörðum er ekki aðeins útflutningsatvinnuvegur og framleiðslugrein, hann getur verið og hefur, með samstarfi og samþættingu við rannsóknaumhverfið, orðið hvati og uppspretta nýsköpunar í tæknigreinum eins og t.d. hátæknifyrirtækin Marel og 3X-Stál bera órækt vitni um.

Sjávarútvegsfyrirtækin eru því ekki aðeins mikilvægir vinnuveitendur heldur er atvinnuvegurinn sem slíkur uppspretta þjónustu, rannsókna og nýsköpunar, og þó að hefðbundinn sjávarútvegur megi muna sinn fífil fegurri frá því á tímum togaraaldar á Vestfjörðum er hann enn þá ein af meginstoðum atvinnulífs okkar Vestfirðinga. Árið 2005 höfðu 1.260 manns atvinnu af sjósókn og fiskvinnslu á Vestfjörðum. Um 40% allrar þjónustu á svæðinu tengjast sjávarútvegi beint eða óbeint. Það er þarna sem sérstaða svæðisins liggur og þarna sem sóknarfærin er að finna.

Frú forseti. Stjórnvöld hafa nú þegar sett sér markmið í þeim byggðaáætlunum sem samþykktar hafa verið á undanförnum árum að jafna aðstöðu milli landshluta, bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla þannig samkeppnishæfni landsins í heild. Það vill stundum gleymast þegar talað er um samkeppnishæfni okkar Íslendinga og möguleika í samskiptum og viðskiptum við aðrar þjóðir að landið samanstendur af hinum ólíku byggðarlögum sem hvert um sig hafa sína sérstöðu og sín sóknarfæri. Það er yfirlýst markmið stjórnvalda að efla landshlutakjarnana og treysta búsetu í þeim byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Það er einnig yfirlýst markmið að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni þannig að byggðarlögin nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum. Í þeirri stefnumótun hefur sérstök áhersla verið lögð á gildi menntunar og menningar og aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarsemi. Í því skyni er þessi þingsályktunartillaga fram borin. Hún miðar að því að virkja sem best fjármagn, hugvit og atgervi á forsendum þess sem fyrir er og veita kröftunum þar með í ákveðinn farveg. Með því að skilgreina sérstöðuna leggjum við grunn til að byggja á sóknarfæri framtíðarinnar.

Frú forseti. Að svo mæltu legg ég til að tillögunni verði vísað til menntamálanefndar og að þar verði m.a. leitað álits úr ráðuneyti byggðamála.