138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikilvægt að geta tengt saman þekkingu og metnað heimafólks í kringum verkefni sem þessi. Ég minni á úttekt á strandveiðunum sem gerð var á síðasta hausti og þá var Háskólasetri Vestfjarða, strandsvæðadeild þess, einmitt falið að gera þá úttekt. Hvað varðar önnur setur sem verið er að byggja upp, hvort sem er á Snæfellsnesi, Norðurlandi, Austurlandi, Vestmannaeyjum, Hornafirði eða Grindavík, skiptir miklu máli að hvert svæði fái skilgreind verkefni á þessu sviði og við þau sé stutt og að nýttur sé styrkur heimamanna við að koma að þessum málum.

Varðandi Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði hef ég reyndar sem þingmaður staðið að tillöguflutningi undanfarin ár um að það verði byggt upp. En ég vil árétta þá stefnu sem við höfum lagt áherslu á í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að þrátt fyrir niðurskurð og þrátt fyrir erfiða tíma sem við horfum á fjárhagslega verðum við að gæta þess að láta það ekki bitna á þessum frjóöngum sem eru víða úti um land og skipta þar gríðarlega miklu máli. Og því máli sem hv. þingmaður ásamt fleiri þingmönnum, líklega úr öllum flokkum, flytur um að styrkja stöðu sjávarútvegs á Ísafirði heiti ég þeim stuðningi sem ég get lagt til af hálfu ráðuneytisins í þeim efnum.