138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um að gera Vestfirði að vettvangi kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvangi rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða.

Í raun og veru útskýrir þetta sig kannski sjálft að því leyti að það er mjög skynsamlegt og eðlilegt að fara með þessi verkefni inn á þetta svæði þar sem er bæði þekking og reynsla er fyrir hendi. En ekki síður met ég þetta þannig að þetta sé ákveðin viðurkenningu fyrir það metnaðarfulla og góða starf sem háskólasetrið hefur unnið með námskeiðum í haf- og strandsvæðastjórnun í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Það hefur gefist einstaklega vel með því góða starfsfólki sem þar vinnur og það hefur staðið sig mjög vel í þeirri vinnu sem það hefur tekið sér fyrir hendur.

Hins vegar er það svo núna, virðulegi forseti, að þetta starf er í raun og veru ekki tryggt nema til stutts tíma og það er það sem við þingmenn kjördæmisins þurfum að tryggja til framtíðar, að það merka og góða starf sem þar er unnið verði fest endanlega í sessi.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara efnislega mikið yfir tillöguna eða greinargerðina vegna þess að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, sem er 1. flutningsmaður tillögunnar, gerði það mjög ítarlega í sínu máli og ég sé því ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég tek hins vegar undir að ég er mjög ánægður með að tillagan er komin fram, enda er ég meðflutningsmaður að henni ásamt mörgum öðrum þingmönnum og það er enginn pólitískur ágreiningur um þetta mál meðal þingmanna kjördæmisins.

Það sem ég vil líka taka öðruvísi vinkil á til viðbótar er það sem ég tel skynsamlegt að gera í framhaldinu af svona hlutum, að það er ekki sjálfgefið, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson benti á áðan, að allt sé á höfuðborgarsvæðinu. Hvaða vit er t.d. í því að Hafrannsóknastofnun sé niðri við Skúlagötu eða Fiskistofa suður í Hafnarfirði? Við höfum bent á þetta í mörg ár, til að mynda, svo ég rifji það upp, höfum við í bæjarstjórn Snæfellsbæjar óskað eftir því í fjölda ára að Hafrannsóknastofnun verði flutt til Snæfellsbæjar og við höfum alltaf spurt um það, alveg sama hver sjávarútvegsráðherrann er: Hver er ástæðan fyrir því að ekki er hægt að flytja stofnunina? Við höfum aldrei fengið svör við því, það er bara „af því bara“. Þarna vantar pólitískan vilja stjórnvalda á hverjum tíma að taka svona ákvarðanir. Ég sæi t.d. fyrir mér, af því að nú er töluvert starf hjá Hafrannsóknastofnun fyrir sunnan í sambandi við veiðarfæragerð og annað, að það mætti flytja hluta af því til Ísafjarðar og hluta af stofnuninni út á landsbyggðina. Það er þetta sem við þurfum að gera. Hvaða vit er t.d. í því eins og með Fiskistofu að hún sé í glerhöll í Hafnarfirði? Það er náttúrlega ekkert vit í þessu, auðvitað eigum við að færa þetta til grunnatvinnuveganna til að það geti blómstrað þar. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram áðan að reynslan er sú þegar menn færa svona stofnanir út á landsbyggðina að þar er mjög stabílt starfsfólk og það hefur reynst í flesta staði ef ekki alla mjög vel. Við eigum því að vera óhrædd við að taka svona ákvarðanir. Það er líka annað sem gerist við þetta og það þekkjum við í hinum smærri samfélögum að þegar svona stofnanir eru færðar flyst þangað menntað fólk og það breytir líka samfélögunum. Samfélagið verður víðsýnna og það breytir samfélögunum og það er til góðs.

Síðast en ekki síst er líka hugsunin á bak við þetta sú að við erum með stofnanir eins og t.d. Vör og BioPol og fleiri góðar stofnanir um allt kjördæmið okkar og það þarf einmitt að styðja við þær vegna þess að þar er reynslan, þar er þekkingin, og fólkið sem býr á stöðunum þekkir þetta miklu betur en það við Skúlagötuna í Reykjavík.

Eigi að síður tek ég undir það með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að þetta fjallar líka um að jafna búsetuskilyrði í landinu. Grunnatvinnuvegir þjóðarinnar sem eru úti á landsbyggðinni í flestum tilfellum eiga auðvitað að vera með þær stofnanir sem þeim tengjast úti á landsbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst það augljóst. Það er líka annað að ef við jöfnum búsetuskilyrðin verjum við byggðirnar og ég tek undir það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði áðan að auðvitað þurfum við gera fleira. Það þarf að bæta eins og t.d. á Vestfjörðum, háhraðatengingarnar, rafmagnsöryggið þarf að vera betra og uppbyggingin á vegunum, sérstaklega í suðurhluta Vestfjarða og eins á milli Vestfjarða í heild sinni. Þetta eru verkefni sem við eigum að vera í og byggja upp þannig að að við getum í raun og veru sagt að búsetuskilyrðin séu jöfn í landinu. Þau eru það ekki og því þarf að breyta.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja að ég fagna þessari þingsályktunartillögu og þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að hafa forgöngu að þessu máli að og ég vænti þess að það fái góða og efnislega meðferð í umfjöllun á Alþingi.