138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í sjálfu sér taka undir það sem fram hefur komið í máli tveggja síðustu hv. þingmanna varðandi það að þetta sem við erum að tala um núna, með því að skilgreina sérstöðu svæðisins, er auðvitað ákveðinn grunnur sem gott er að leggja til þess að byggja á. En til þess að svæðið í heild geti talist samkeppnishæft þarf að gera gott betur.

Það eru náttúrlega málefni sem við þekkjum vel, þingmenn svæðisins, þ.e. samgöngumálin, raforkumálin og fjarskiptamálin. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á og reyndar hv. þm. Guðbjartur Hannesson líka snýst þetta öðrum þræði um að jafna búsetuskilyrðin, þetta snýst um að framfylgja ákveðinni jafnaðarstefnu, þ.e. að jafna samkeppnishæfi landshlutanna. Til þess að það sé hægt þarf náttúrlega að sinna grunngerð þessara landshluta, ákveðnum grunnþáttum eins og þjónustu og samgöngum o.fl. Þar er náttúrlega verulegt verk að vinna á þessu umrædda svæði á Vestfjörðum.

Mér finnst gott að heyra tóninn í mönnum í umræðunum og vænti þar af leiðandi góðs um framhald málsins og um samstarf okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis um málefni Vestfjarða á fleiri sviðum en því sem lýtur að þessu skilgreiningarstarfi hér.