138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að auðvitað þurfum við að laga grunngerð samfélagsins, það er alveg hárrétt. Þetta er einmitt hluti af því að viðurkenna það að við ætlum að búa í einu landi með eina þjóð en ekki vera með tvær þjóðir í einu landi, eins og sumir hafa sagt í þessum ræðustóli, þ.e. að aðgengi almennings og búsetuskilyrði séu jöfn, við getum svo sem haldið margar og langar ræður um það.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er sameiginlegur skilningur okkar þingmanna kjördæmisins að þetta er það sem við þurfum að gera og beita okkur fyrir enda hefur ekki staðið neinn ágreiningur um það í störfum okkar.

Ég held hins vegar að við þurfum líka að fara að ræða mjög efnislega til að mynda um þann úrskurð sem kom núna frá umhverfisráðuneytinu um uppbyggingu á vegum. Það hefur tafist og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, það þekkja allir hv. þingmenn kjördæmisins. Ég held að menn þurfi þá að fara að hugsa það hvort við þurfum ekki að breyta lögunum til að geta lagað samfélagið að þessari þörf. Og að við getum ekki byggt upp vegi vegna þess að einhverjir eru alltaf með einhvers konar kærur og vitleysur, sem tekur náttúrlega út yfir alla þjófabálka. Ég held að við verðum að ræða þetta í okkar hópi þó að við gerum það ekki hér á þessum tíma núna. En við verðum auðvitað að bregðast við þessu, að hugsanlega sé fólkið sem býr á suðvesturhorninu, sem hugsar sér að koma á sólríkum dögum, að stoppa uppbyggingu á vegum. Þetta eru hlutur sem menn verða að ræða þannig að það sé ekki eins og það er í dag, að það virðist vera að tekið sé fram fyrir búsetuskilyrðin hjá mannfólkinu á svæðum eins og suðurhluta Vestfjarða, að þar séu einhverjir vaðfuglar og einhverjar svona vitleysur. Ég held að menn verði nú að fara að hugsa þetta, ekki er ágreiningur um það í hópi okkar þingmanna, en þetta er hlutur sem við verðum að fara að ræða mjög alvarlega.