138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

176. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, um gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að hefja stefnumótun um gerð samninga við önnur ríki um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Verði að því stefnt að fjölga gerð slíkra samninga til þess að efla traust og skapa hagfelld skilyrði fyrir beina erlenda fjárfestingu hér á landi sem og fjárfestingu íslenskra aðila erlendis. Gerð slíkra samninga stuðlar jafnframt að aukinni milliríkjaverslun og veitir fjárfestum aukna vernd. Sérstaklega verði að því stefnt að gera samninga af þessu tagi við þau ríki þar sem Íslendingar hafa mestu viðskiptahagsmunina.“

Upphaf þessa máls hér í þinginu er það að ég lagði fram fyrirspurn 12. ágúst í fyrra til hæstv. utanríkisráðherra um hversu margir samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga væru í gildi og hvort ætlunin væri að gera fleiri slíka samninga og ef svo væri, við hvaða lönd. Þessar spurningar voru lagðar fram að gefnu tilefni. Samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga hafa verið að ryðja sér til rúms í samskiptum milli þjóða. Þeim er ætlað að tryggja vernd fjárfestinga og stuðla þannig að aukinni fjárfestingu á milli landa og greiða fyrir alþjóðlegum viðskiptum. Við Íslendingar höfum gert ótrúlega fáa slíka samninga. Núverandi aðstæður hafa hins vegar gert það knýjandi að settur verði mikill kraftur í gerð slíkra samninga.

Í fyrsta lagi, eins og ég nefndi áðan, til þess að laða erlenda fjárfesta hingað til lands. Hingað vantar mjög erlent fjármagn og leiðin til þess er meðal annars sú að fá erlenda fjárfesta til að leggja fram fjármagn til atvinnuuppbyggingar, bæði með lánveitingum og með beinni hlutafjárþátttöku.

Það er líka ljóst að trúverðugleiki okkar víða erlendis hefur beðið hnekki. Þó er það ekki á öllum sviðum en engu að síður er margt sem hefur gert það að verkum að erlendir fjárfestar hafa hikað við að koma með fjármuni sína hingað. Umdeildar og lítt hugsaðar aðgerðir stjórnvalda nú upp á síðkastið, eins og t.d. í skattamálum, hafa líka rýrt trúverðugleika okkar út á við og hamlað því að erlendir fjárfestar vildu lána hingað fé, hvað þá að taka þátt í atvinnuuppbyggingu með beinum hætti.

Það er mjög þekkt frá öðrum ríkjum sem vilja laða til sín erlenda fjárfestingu að þau gera það með því að reyna að skapa traust og trúverðugleika. Við þekkjum dæmi um þetta. Þegar Tékkóslóvakíu var á sínum tíma skipt upp í Tékkland og Slóvakíu var það hluti af áætlun ríkisstjórna þessara landa, til þess að laða að erlent fjármagn, að ráðast í gerð eins margra samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga og mögulegt var. Ég er ekki að líkja saman ástandinu hér og í þessu gamla kommúnistaríki Tékkóslóvakíu en engu að síður er það þannig að við þurfum að bæta okkar trúverðugleika og auka áreiðanleika og álit þjóðarinnar sem hefur sannarlega beðið hnekki, sérstaklega á fjármálasviðinu.

Svo er önnur hlið þessa máls sem ekki má heldur gleyma og hún er sú sem lýtur að vernd fjárfestinga íslenskra aðila í útlöndum. Íslendingar eiga þrátt fyrir allt, þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir að mikil verðmæti hafi glatast, mikla fjármuni bundna í erlendum fjárfestingum af margs konar toga. Þær tölur sem við höfum um þetta eru þó á margan hátt villandi og kannski ekki auðvelt að vitna í þær vegna þess að á bak við tölur um eignir okkar eru líka eignir sem hafa hrunið í verði, þær eru í slitameðferð, þær eru í gjaldþrotaskiptum og kannski eru þær háðar nauðasamningum. Þær gefa samt sem áður til kynna að þarna eru miklir hagsmunir í húfi og það skiptir miklu máli fyrir okkur að leikreglurnar séu þannig að þessar eignir njóti eðlilegrar verndar og ekki sé hægt að ganga að þeim með óeðlilegum hætti eða rýra verðmæti þeirra.

Áður en lengra er haldið er rétt að ég geri grein fyrir því hvað um er að ræða þegar við tölum um samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Í sem skemmstu máli má segja að hér sé um að ræða tiltölulega nýtt fyrirbrigði. Það er nýtt í þeim skilningi að rekja má það aftur til ársins 1959 og það er tiltölulega nýtt þegar menn eru að tala um svona samninga, en það var árið sem fyrsti samningurinn af þessu tagi leit dagsins ljós. Samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga eru í dag u.þ.b. 2.500 og flest vestræn ríki eru með tugi slíkra samninga í gildi.

Þessir samningar eru tvíhliða í eðli sínu þar sem þau ríki sem í hlut eiga leitast við að skapa hagstæðar aðstæður fyrir fjárfestingar af hálfu fjárfesta annars ríkis á landsvæði hins. Slíkum samningum er ætlað að hvetja til fjárfestinga milli þeirra ríkja sem í hlut eiga og tryggja vernd fjárfestinga og stuðla þannig að auknum viðskiptum milli ríkjanna. Samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga kveða líka á um að fjárfestingar fjárfesta hvors ríkis um sig skuli njóta fullrar verndar og öryggis á landsvæði hins og að ekki verði gripið til neinna óréttmætra aðgerða sem varða fjárfestingar fjárfesta hins ríkisins í landinu. Þessir samningar fela líka í sér að ekki megi taka fjárfestingar fjárfesta eignarnámi, ekki þjóðnýta þær eða gera ráðstafanir gagnvart þeim sem hafa sömu áhrif og eignarnám eða þjóðnýting. Komi til slíkra aðgerða skal slíkt aðeins gert samkvæmt tilhlýðilegri lagalegri málsmeðferð og gegn skilagóðum, nægilegum og skilvirkum bótum, eins og það hefur verið orðað. Auk þess er í slíkum samningum yfirleitt mælt fyrir um að ríki skuli tryggja að fjárfestar hins ríkisins geti yfirfært fjárfestingar sínar og ágóða, sem er bundinn á landsvæði fyrrnefnda ríkisins, án tafar og án nokkurra hafta, þar með talið gjaldeyrishafta.

Deilur milli ríkja getur hvor samningsaðili fyrir sig lagt fyrir gerðardóm sex mánuðum eftir að samningaviðræður um úrlausn deilu hefjast, og slíkur gerðardómur er þá skipaður sérstaklega í slíkum tilvikum. Sé um að ræða deilu milli fjárfestis og ríkis getur fjárfestirinn lagt hana fyrir Alþjóðastofnunina um lausn fjárfestingardeilna eða skipað sérstakan gerðardóm. Í báðum tilvikum fengist endanleg lausn sem væri bindandi fyrir þau ríki, og fjárfesta þeirra eftir atvikum.

Það er áhugavert í þessu sambandi að velta því fyrir sér hvort samningar af þessum toga hefðu einhverju breytt í þeim erfiðu og sársaukafullu deilum sem við höfum staðið í upp á síðkastið, meðal annars út af Icesave-innlánunum. Svarið við þessari spurningu er ekki einhlítt en þó er óhætt að fullyrða að staða okkar hefði án efa orðið mun sterkari með slíkan samning í farteskinu. Ástæða þess að við gerðum ekki slíkan samning við Bretland eða önnur ríki, sem eru okkur mikilvægust í viðskiptum, er sennilega sú að samskiptin hafa almennt talað verið góð og ekki hefur hlaupið snurða á þráðinn frá tímum landhelgisdeilnanna. Þessi ríki eru vestræn lýðræðis- og réttarríki, við eigum samskipti við þau á grundvelli annarra samninga, svo sem EES-samningsins, og því hefur væntanlega ekki verið talin þörf á sérstökum samningi um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

Nú er öldin hins vegar önnur og samskipti okkar við þessi ríki hafa sum hver gefið okkur fullt tilefni til þess að við hyggjum að slíkum samningum, meðal annars til þess að tryggja og vernda eignir íslenskra aðila erlendis, jafnframt því að laða hingað til lands erlent fjármagn, sem ég hef þegar gert að umræðuefni.

Ef samningur um gagnkvæma vernd fjárfestinga hefði gilt á milli Íslands og Bretlands hefði verið til augljós og óumdeildur vettvangur til að láta reyna á réttmæti þess að bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögunum með þeim hætti sem gert var. Slíkir samningar skapa þannig úrræði fyrir þau ríki sem standa að gagnkvæmum samningi um vernd fjárfestinga til þess að leysa úr deilum sín á milli. Jafnframt verður til möguleiki fyrir fjárfesta sem eru með beinar fjárfestingar í öðru hvoru samningsríkinu til beinnar málshöfðunar gagnvart því ríki þar sem fjárfesting er til staðar. Þeir fjárfestar sem höfðu ráðist í beinar fjárfestingar í Bretlandi hefðu þess vegna getað farið með þau mál gegn breska ríkinu fyrir alþjóðlegan gerðardóm, en slík mál eru að öllu jöfnu leyst fyrir alþjóðlegum gerðardómi fyrir tilstuðlan Alþjóðastofnunarinnar um lausn fjárfestingardeilna í Washington, eins og ég nefndi hér áðan.

Yrði niðurstaðan sú að um óréttmæta beitingu hryðjuverkalaganna hefði verið að ræða væri aðstaðan önnur. Þá væri komin upp sú staða að það væri Ísland og íslenskir fjárfestar sem hefðu ótvíræða möguleika á að krefjast bóta frá breskum stjórnvöldum, í stað þess að bresk yfirvöld komist upp með að þvinga íslensku þjóðina til nauðungarsamninga án dóms og laga eins og þeir hafa verið að reyna að gera í Icesave-tilvikinu.

Ég vék að þessu máli í fyrirspurninni sem ég rakti áðan að ég hefði borið fram 12. ágúst í fyrra og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson vék að þessu atriði í svari sínu við fyrirspurn minni. Orðrétt sagði hæstv. ráðherra:

„Ég vil síðan í lokin segja að undir ræðu minni hef ég aðeins verið að þenkja um hugmynd hv. þingmanns um að ef í gildi væri slíkur samningur milli okkar og Bretlands. Ég hygg að það sé alveg rétt að við hefðum átt tök á því að skjóta þeirri ákvörðun sem breska ríkisstjórnin tók í október sl. til slíks gerðardóms. Það hefði væntanlega styrkt stöðu okkar töluvert í því stríði sem háð var um þann tiltekna hluta þeirrar deilu.“

Ég tel að þessi ummæli hæstv. ráðherra séu mjög athyglisverð og renni stoðum undir þýðingu þess að við förum í það með skipulegum hætti að gera fleiri samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga og ekki bara við ríki þar sem við eigum lítilla hagsmuna að gæta heldur ekki síður við þau ríki þar sem okkar viðskiptalegu hagsmunir eru mestir, einfaldlega vegna þess að við höfum rekið okkur á það að það lagaverk sem við erum að styðjast við hefur verið svo tafsamt að það hefur ekki orðið til þess að verja okkur í því mikla stríði sem við höfum háð við þjóðir sem við álitum að væru okkar vinaþjóðir.

Samkvæmt upplýsingum úr svari hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn minni hafa Íslendingar eingöngu gert ellefu samninga við ríki af þessu tagi, og það eru nánast allt ríki þar sem við eigum tiltölulega litla viðskiptalega hagsmuni. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Alþjóðastofnunarinnar um lausn fjárfestingardeilna er Ísland í 119.–123. sæti af þeim 174 þjóðum sem hafa gert slíka samninga. Þau lönd sem eru með Íslandi í flokki í þessum efnum og hafa gert u.þ.b. jafnmarga samninga og Ísland eru Burkína Fasó, Trínidad og Tóbagó, Zaír og Zambía.

Því miður er það svo að það er mjög fátt að gerast í þessum efnum hér á landi. Það kemur líka fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni að þau áform sem uppi eru eru mjög fátækleg og lúta alls ekki að því að við séum að reyna að gera slíka samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga við þær þjóðir þar sem mest ríður á að mínu mati. Ég tel að tilefnin séu nægileg og svar hæstv. ráðherra sýni okkur að fullt tilefni er til þess fyrir okkur að hyggja betur að þessum málum en við höfum gert. Beiting Breta á hryðjuverkalögunum gagnvart Íslandi sannar þetta. Bretar hafa hingað til talist til vinaþjóða okkar en þeir settu samt sem áður Ísland á lista með illræmdum hryðjuverkasamtökum og ríkjum sem veita slíkum samtökum stuðning. Það er enn fremur ljóst að ákvæðum um fjárfestingar og vernd fjárfestinga er ekki til að dreifa í öllum þeim fríverslunarsamningum sem gerðir hafa verið á vegum EFTA og kom slíkt ákvæði ekki inn fyrr en nú í seinni tíð. Þar að auki er inntak þeirra ákvæða ekki efnislega sambærilegt því að hafa sérstakan samning um gagnkvæma vernd fjárfestinga, sérstaklega með tilliti til úrlausnar hugsanlegra ágreiningsmála.

Áhugi á þessum málum fer vaxandi hér á landi. Mér er kunnugt um að viðskiptalífið hefur verið að hyggja að þessu með skipulegum hætti og verið að láta fara ofan í þessi mál. Ég held því að það skipti miklu þegar þetta mál fer nú til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar — en ég legg það til að málinu verði vísað þangað að lokinni þessari umræðu — að kallað verði eftir viðbrögðum frá utanríkisráðuneytinu og ekki síður frá aðilum í viðskiptalífinu sem gætu lagt á að mat með nefndinni hvort ekki væri fullt tilefni til að gera slíka samninga. Ég tel þess vegna mikilvægt að í senn sé leitað eftir skriflegu áliti aðila úr atvinnulífinu, og líka kallaðir til aðilar sem þekkja vel til þessara mála, til að leggja mat á það hvort ekki megi gera gangskör að því að koma á fleiri svona samningum, til þess í fyrsta lagi að tryggja vernd eigna okkar erlendis og í öðru lagi að reyna að stuðla að því að laða hingað til lands aukið fjármagn, bæði í formi hlutafjár og eins í formi lánsfjár. Við þurfum á því að halda við þær aðstæður sem við búum við í dag að fá aukið erlent fjármagn, ekki síst til að leggja í áhættusamar fjárfestingar og mikilvægar fjárfestingar en líka í formi lánsfjár til að standa straum af ýmsu því sem við þurfum að gera.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu, eins og ég nefndi hér áðan, legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.