138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

176. mál
[17:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta mál lætur ekki mikið yfir sér en það er töluvert veigamikið. Þannig er mál með vexti að eftir hrunið skapaðist mikið atvinnuleysi á Íslandi sem er mjög neikvætt, afskaplega neikvætt, og við höfum rætt það fyrr hér í dag.

Til þess að ráðast gegn atvinnuleysi þarf fjárfestingar. Það er ekkert annað sem skapar atvinnu en fjárfestingar eða lánveitingar til fyrirtækja sem eru starfandi. Hvort tveggja byggist á trausti. Það er traustið sem leið mest fyrir hrunið. Fjármagnseigendur, þeir sem hafa lagt fyrir fé, sparað, neitað sér um neyslu og hafa fjárfest í hlutabréfum eða innlánum með því að leggja til sparifé í bönkum — þetta fé tapaðist, sumt algjörlega og annað verulega, og traustið á hlutabréfamarkaðnum er nánast farið.

Sú tillaga sem hér er lögð til um að taka upp samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga gæti stuðlað að því að þetta traust byggðist upp aftur, traust manna á því að fjárfesta í hlutabréfum vegna þess að það voru hlutabréfaeigendur sem fyrst og fremst töpuðu verulega miklu á hruninu. Það varð eignahrun, sennilega nálægt 100 milljörðum, hjá venjulegum hlutabéfaeigendum, venjulegu fólki sem átti hlutabréf, og einhver óþekkt tala var tapið hjá stofnfjáreigendum í sparisjóðum þar sem staðan er sums staðar mjög slæm.

Þetta fólk segir náttúrlega sína sögu ekki fallega og sá orðrómur kemur í veg fyrir að almenningur fjárfesti í hlutabéfum aftur. Við verðum, frú forseti, að vinna að því að byggja upp traust með öllum ráðum og þessi tillaga til þingsályktunar er þáttur í því. Því miður hefur hæstv. ríkisstjórn eiginlega unnið gegn þessu því að allar hennar ráðstafanir hingað til hafa verið gegn fjármagni. Það hafa verið auknir skattar á hagnað, auknir skattar á vexti o.s.frv., eignarskattar, það virðist allt vera gert til þess að vinna gegn því að menn fjárfesti í atvinnulífinu, allt til þess að vinna gegn því að hér skapist atvinna. Það má líka nefna tryggingagjaldið sem er hreinlega skattur á atvinnu. Það veitir því ekki af að menn komi með einhverja bjartsýni og eitthvað bjart inn í myndina og þessi tillaga til þingsályktunar er hluti af því að auka og byggja upp aftur traust á hlutafé og fjárfestingum sem því miður er algjörlega farið. Það er forsenda þess að við getum búið til atvinnu sem atvinnulaust fólk á Íslandi þarf nauðsynlega á að halda.