138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að kveðja mér hljóðs um störf þingsins og eiga orðastað við hv. þm. Ögmund Jónasson sem hefur farið mikinn undanfarið og fundið uppbyggingu heilsutengdrar starfsemi á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli flest til foráttu. Andstaða þingmannsins kemur svo sem ekki á óvart. Hún er kunn og í tíð hans sem heilbrigðisráðherra beitti hann sér fyrir því að ekkert yrði af fyrirhugaðri uppbyggingu þessarar starfsemi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en það er önnur saga.

Byggja á upp og taka í notkun gamla herspítalann á Keflavíkurflugvelli en hv. þingmaður kom seinast í fréttum í gær með miklar yfirlýsingar um að verið væri að taka peninga úr vösum skattborgaranna og láta þá renna inn í einkarekið heilbrigðiskerfi á sama tíma og við værum að skera niður framlög til almannaþjónustu. Ég verð að segja við hv. þingmann að mér koma á óvart þær rangfærslur og skortur á virðingu fyrir staðreyndum málsins þegar þingmaðurinn segir þetta vegna þess að honum er jafn vel kunnugt og mér að hugmyndafræðin á bak við starfsemi Þróunarfélagsins á Keflavíkurflugvelli er að koma þeim byggingum og þeim verðmætum sem urðu eftir þegar herinn fór í borgaraleg not. Hluti af tekjum Þróunarfélagsins af sölu og rekstri leigueignanna sem búið er að koma í not er nýttur til að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu. Þetta er verið að gera þarna. Það er ekki svo að verið sé að færa 100 millj., eins þingmaðurinn telur að verið sé að gera, úr heilbrigðisrekstri í vasa einhvers nafngreinds einkaaðila sem hv. þingmaður finnur allt til foráttu. Þarna er verið að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á þessu svæði. Það er verið að tryggja að 300 manns fái störf við sitt hæfi. (Forseti hringir.) Það er verið að tryggja það að á svæði þar sem atvinnuleysi er mjög mikið séu tækifærin nýtt (Forseti hringir.) og þarna er verið að stuðla að því að heilbrigðisstarfsmenn flytji unnvörpum til útlanda, eins og getið var um í Morgunblaðinu . Ég vil að hv. þingmaður (Forseti hringir.) taki þessar athugasemdir til greina (Forseti hringir.) og snúi af villu síns vegar í þessum málum.