138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er dýrt að reisa sjúkrahús en það er smámál í samanburði við að reka sjúkrahús til langs tíma. Heilbrigðiskerfið á Íslandi er sérstakt um tvennt. Það er opið öllum á jafnréttis- og jafnræðisgrundvelli og það er fjármagnað með peningum upp úr vasanum hjá mér og þér og hjá skattborgurum þessa lands. Það kemur okkur öllum við hvernig þetta kerfi er skipulagt.

Nú er okkur sagt að nýtt einkasjúkrahús með 300 starfsmönnum eigi að vera aðskilið annarri heilbrigðisstarfsemi í landinu. Hvernig má það vera? Hver á að fjármagna þetta kerfi? Menn segjast ætla að flytja inn sjúklinga frá útlöndum. Hver borgar brúsann? Hefur hv. þingmaður virkilega ekki kynnt sér deilur sem fram fara í Evrópu, ekki síst á Norðurlöndum, um fjármögnun á heilsutengdri heilbrigðisþjónustu yfir landamæri? Þekkir hv. þingmaður ekki til þessarar umræðu? Ég spyr: Hafa þingmenn sem hafa tekið stórt upp í sig til varnar nýjum einkaspítala á Keflavíkurflugvelli, kynnt sér þessar bisnesshugmyndir? Þetta eru bisnesshugmyndir sem gerðar eru út á kostnað okkar, skattborgaranna, vegna þess að það er skattborgarinn íslenski, íslenska heilbrigðiskerfið, sem á að borga brúsann þegar upp er staðið. (REÁ: Þetta er rangt.) Hv. þingmaður segir að ég fari með staðlausa stafi, að þetta sé rangt hjá mér. Nú ætla ég að biðja hv. þingmann að skýra það fyrir mér, fyrir Alþingi og fyrir þjóðinni nákvæmlega hvernig reksturinn og fleira verður fjármagnað. (Forseti hringir.) Við erum ekki bara að tala um smíði sjúkrahússins sem slíks. Hvernig verður þetta fjármagnað til langs tíma? Nú er óskað eftir svörum.