138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir fyrirspurnina. Hann spyr út í ástæður þess að ekki hefur verið farið út í að greina hversu mikill skuldavandi heimila er. Það má kannski útskýra þessa stöðu með því að núna starfar þverpólitísk nefnd sem ætlað er það hlutverk að meta skuldaúrræði stjórnvalda og þau úrræði sem eru í boði í bönkunum. Á mánudaginn í þessari viku lagði nefndin fram minnispunkta þar sem vakin er athygli á nauðsyn þess að breyta lögum m.a. um greiðsluaðlögun og skuldaaðlögun fyrirtækja og heimila. Nefndin gerir líka tillögur um lagfæringar á framkvæmd þessara skuldaúrræða og hvetur til þess að upplýsingar um afskriftagetu bankanna liggi fyrir.

Að lokum eru í þessum minnispunktum fjórar tillögur um úrbætur sem vonast er til að efnahags- og viðskiptaráðherra, félags- og tryggingamálaráðherra og dóms- og mannréttindaráðherra leitist við að hrinda í framkvæmd. Fyrsta tillagan er sú að fundinn verði farvegur fyrir óháða ráðgjöf til einstaklinga um tilboð bankanna. Í dag er því þannig farið að margir hafa ekki yfirsýn yfir skuldaúrræðin og bíða frekar en leita úrlausna sinna mála. Ástæðan fyrir því að fólk bíður er sú að það treystir ekki bönkunum. Síðan er gerð tillaga um að komið verði á úrræði fyrir þá sem ekki geta staðið undir skuldabyrði sem er undir 80% (Forseti hringir.) af markaðsvirði fasteignar. Lagt er til að það verði heildstæðara utanumhald um greiðsluaðlögunarferlið (Forseti hringir.) og að lokum að afskriftageta bankanna verði kortlögð.